Metaðsókn í Sundlaug Akureyrar

Endurbætt sundlaugarsvæði hefur sannarlega aukið aðsókn í Sundlaug Akureyrar. Mynd/Axel Þórhallsson.
Endurbætt sundlaugarsvæði hefur sannarlega aukið aðsókn í Sundlaug Akureyrar. Mynd/Axel Þórhallsson.

Aðsókn í Sundlaug Akureyrar hefur aukist um 46% frá því nýjar rennibrautir voru teknar í notkun. Forstöðumaður sundlaugarinnar segir að endurbætt sundlaugarsvæði komi til með að auka ferðamannastraum til Akureyrar. Endurbótum á Sundlaug Akureyrar er lokið en þær hafa staðið í tvö ár. Settar hafa verið upp þrjár nýjar rennibrautir, lendingarlaug, nýir pottar og fleira. Heildarkostnaður er yfir 400 milljónum króna og fór talsvert fram úr upphaflegum áætlunum. 

Frá þessu er greint á vef Rúv.

Þar segir að í júlí hafi komið að jafnaði um tvö þúsund gestir á dag, alls um 60 þúsund, sem er met frá því laugin var opnuð. Aðsókn í júlí var 46% meiri en í júlí 2016. Það sem af er ári hefur aðsókn aukist um fimmtung. Nú lítur út fyrir að yfir 400 þúsund gestir komi í sundlaugina á þessu ári. 

Elín Gísladóttir, forstöðumaður sundlaugarinnar, segist í samtali við Rúv hafa átt von á aukinni aðsókn. „En að hún yrði svona mikil, sérstaklega núna yfir sumarmánuðina, ég held mér hefði aldrei dottið það í hug og ég held mér hefði aldrei dottið í hug að við gætum tekið á móti svona mörgum,“ segir Elín og bætir við að það hafi gengið vel að taka á móti svona miklum fjölda. 

„Þetta hefur dreifst tiltölulega vel yfir daginn og svo er ég með alveg einstaklega gott starfsfólk,“ segir Elín. Hún bætir þó við að stundum sé þröngt og fólk þurfi ef til vill að bíða lengur en áður eftir skápum og sturtu.  


Nýjast