„Matargerð er eitthvað sem ég framkvæmi af ástríðu eins og flest sem ég geri“

Leifur á góðri stund með dóttur sinni eftir að hafa gætt sér á keilusteik.
Leifur á góðri stund með dóttur sinni eftir að hafa gætt sér á keilusteik.

Að þessu sinni er það brottfluttur Húsvíkingur sem kitlar bragðlauka lesenda í Matarkistu Skarps. Þetta er enginn annar en Leifur Þorkelsson framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Austurlands, tísku bloggari og annálaður smekkmaður í mat og drykk. „Matargerð er eitthvað sem ég framkvæmi af ástríðu eins og flest sem ég geri,“ segir Leifur en hann skorar á Valdimar Halldórsson, framkvæmdastjóra Norðursiglingar að toppa þessa dásamlegu uppskrift sem hér fer að neðan:

Steikt keila með hvítlauk, steinselju og helling af smjöri

Hér er reyndar notast við mynd úr safni

Smjör er gríðarlega mikilvægt hráefni í alla matargerð, sá sem ekki hefur greiðan aðgang að smjöri getur ekki búið til almennilegan mat. Til að taka af allan vafa þá er sólblóma ekki smjör, ekki létt & laggott eða eitthvað þessháttar heldur. Smjör skal það vera.

Það má í rauninni nota hvaða fisk sem er í þennan rétt en eftir að ég prófaði að nota keiluhnakka sem ég fékk hjá Kalla Sveins á Borgarfirði hef ég ekki notað annað.

Hráefni (veit ekki hvað þarf mikið af hverju, þið finnið út úr því):

Smjör

Keiluhnakkar

Steinselja

Hvítlaukur

Kartöflur o.fl.

Sojasósa

Salt og pipar

Aðferð:

 

Til að hafa smá skipulag á þessu öllu saman er albest að byrja á því setja upp kartöflur. Einhver vill kannski hafa eitthvað annað meðlæti með þessu, það má alveg og gerir ekkert til.

Á meðan þið bíðið eftir að suðan komi upp er gráupplagt að setja góðan slatta af smjöri í pott og láta það bráðna í rólegheitunum við lágan hita.

Næst á dagskrá er að saxa niður steinselju og hvítlauk og blanda því saman. Það þarf helling af því skal ég segja ykkur, talsvert meira en þið haldið. Þessu næst er fiskinum velt upp úr blöndunni, það er gráupplagt að ausa ofurlitlu smjöri úr pottinum yfir fiskinn áður, svona til þess að blandan tolli betur á honum. Þegar fiskurinn er löðrandi í steinselju og hvítlauk er við hæfi að raða honum á smekklegt postulínsfat (eða sambærilegt), athuga hvort kartöflurnar sjóði ekki örugglega og hvort smjörið sé nokkuð að brenna í pottinum, þið munið að hitinn undir smjörinu á að vera ósköp lítill.

Ef allt er í stakasta lagi á þessum tímapunkti er ekki úr vegi að setjast niður, ná áttum og hugleiða næstu skref. Ef ekki skal gripið til viðeigandi aðgerða.

Nú þarf að finna steikarpönnuna, setja á hana góða klípu af smjöri og skella henni á eldavélina. Á meðan smjörið bráðnar á pönnunni má hella slatta af sojasósu saman við smjörið í pottinum ásamt afganginum af hvítlauknum og steinseljunni e.t.v. er óhætt að hækka undir smjörinu um þessar mundir ef þið teljið það til bóta. Nú er að steikja fiskinn og það er tilvalið að sáldra salti og pipar yfir hann á pönnunni. Það er um að gera að hafa eldavélina ekki alveg í botni annars gæti þetta endað með ósköpum.

Þegar fiskurinn er hæfilega steiktur er honum raðað á smekklegt postulínsfat (eða sambærilegt) og hann borinn fram með soðnum kartöflum og bræddu smjöri með sojasósu, steinselju og hvítlauk. Það er mikilvægt að setja mikið af smjörblöndunni yfir fiskinn. Ef einhver vill skreyta sinn disk með svolítilli smjörklípu má hann það.

Verði ykkur að góðu


Nýjast