Línan í okkur öllum

Það þarf ekki að orðlengja það að aðstandendur Freyvangsleikhússins eru metnaðarfullur hópur áhugafólks um leiklist í héraði. Þegar litið er til baka sést að á liðnum árum hefur verið ráðist í hvert stórvirkið á fætur öðru. Gamanleikir, söngleikir, og barnaleikrit hafa verið flutt fullmönnuð þrátt fyrir að efni og aðstæður þrengi að. Á föstudaginn í síðustu viku frumsýndi Freyvangsleikhúsið leikverk byggt á fyrstu bók Astridar Lindgren um hina óviðjafnanlegu Línu, Línu langsokk.

Bókin um Línu langsokk er samin á árum seinni heimsstyrjaldarinnar en eftir því sem Karin Nyman, dóttir Astridar, hefur látið hafa eftir sér þá varð Lína langsokkur til af því að hún heimtaði að mamma sín segði sér sögu af stelpu sem héti þessu skrítna nafni frekar en að lesa upphátt fyrir hana úr hefðbundinni barnabók. Lína er eins konar ofurstúlka og vinsældir hennar benda til þess að börn um víða veröld sjái í henni eitthvað sem þau dreymir um að geta sjálf. Lína langsokkur, eða Sigurlína, Rúllugardína, Nýlendína, Krúsímunda, Efraímsdóttir Langsokkur er ofursterk, kjörkuð, réttsýn, heiðarleg og hjálpsöm.

Eins og jafnan áður hefur því ágæta fólki sem er í forsvari fyrir Freyvangsleikhúsið tekist að fá til sín leikstjóra sem kann á hlutum skil. Gunnar Björnsson hefur víða komið við bæði í leikhúsi, sjónvarpi og kvikmyndum. Það er ljóst að hann hefur sérstaklega gott laga á börnum en unga fólkið á sinn stóra þátt í því hversu vel lukkuð sýningin er. Gunnari hefur líka tekist með miklum ágætum að virkja hæfileika aðalpersónunnar Jóhönnu Kristínar Andradóttur sem leikur Línu. Jóhanna er Lína á því leikur enginn vafi. Í túlkun sinni er hún kraftmikil og lífsglöð. Jóhanna sýnir okkur umhyggja Línu fyrir vinum sínum á sannfærandi hátt án þess að vera með einhverja væmni. Hún sýnir þeim sem hún tekst á við í verkinu líka fulla virðingu þótt manni finnist viðkomandi ekki alltaf eiga það skilið.

Helstu meðleikendur Línu eru systkinin Tommi, Símon Birgir Stefánsson og Anna, Embla Björk Jónsdóttir. Þótt hlutverk Línu sé óneitanlega mjög krefjandi, en hún ber sýninguna uppi frá upphafi til enda, þá skiptir miklu að þau sem fara með hlutverk Tomma og Önnu nái því jafnvægi í leik sínum sem gerir Línu skiljanlega sem manneskju. Þetta eru vel uppalin börn frá góðu heimili og Lína er einfaldlega ranghverfan á því sem þeim hefur verið kennt. Lærðar greinar hafa verið skrifaðar um boðskap verksins og sýnist sitt hverjum. Hvað sem öðru líður þá lætur Lína illa ígrundaðar hegðunarreglur hinna fullorðnu aldrei stöðva sig en gerir þó aldrei lítið úr þeim sem hún tekst á við í það og það skiptið. Rannsóknir sýna reyndar að börn líta sjaldnast á Línu sem fyrirmynd en flest vildu þau eiga hana að vini.

Eins og nær allar sýningar Freyvangsleikhússins á liðnum árum þá er Lína langsokkur mannmörg sýning og ótrúlegt hvað vel hefur tekist að manna hlutverkin. Það kom mér ánægjulega á óvart hversu skemmtilegir þeir félagar Hr. Níels (apinn), Elfa Rún Karsldóttir og Litli Karl (hesturinn), Sindri Snær Konráðsson, voru. Þeir gáfu sýningunni tvímælalaust aukin ævintýrablæ ekki síður en sjóræningjar, löggur og kjarklitlir innbrotsþjófar. Svo var það Fr. Prússolína, Helga Dögg Jónsdóttir, fulltrúi valdsins sem „einstæðingurinn“ Lína þarf að takast á við út í gegnum verkið. Helga Dögg sýnir okkur sérlega einstrengingslegan fulltrúa barnaverndaryfirvalda. Henni er þó ekki alls varnað eins sjá má í lokin en stympingar hennar og Línu bjóða upp á mikinn ærslagang og læti. Svipaða sögu má segja um kennslukonuna, Erla Ruth Möller, sem þó er ekkert nema gæskan. Hún vill þó fyrir alla muni halda uppi aga í bekknum sínum. Aðrir leikarar skila sínu af mikilli prýði og auðvitað er mikils um vert að Hr. Langsokkur er mikill á velli og trúverðugur sem óforbetranlegur sjóræningi sem siglir um höfin sjö en gleymir þó ekki að vitja dóttur sinnar hvað sem á gengur.

Sýningin nýtur þess svo að hafa afbragðsgóða hljómsveit, undir stjórn Gunnars Möllers, sér til stuðnings. Danshöfundarnir Harpa Lísa Þorvaldsdóttir og Karen Huld Björgvinsdóttir eiga lof skilið fyrir sitt framlag. Dansar í sýningunni og hreyfingar leikaranna almennt voru með miklum ágætum og gerðu það að verkum að sýningin var eins vel samhæfð og raun bar vitni.

Lína langsokkur er frábært verk og þörf ábending um að ímyndunarafl og lífsgleði er orka sem getur stutt okkur í baráttunni gegn illa grunduðum boðum og bönnum. Fimm ára gömul stúlka sem sat fyrir aftan mig sagðist vera að „deyja úr spenningi“ rétt áður en sýningin hófst. Þegar henni lauk átti sú stutta í erfiðleikum með að finna nógu sterk orð til að lýsa því hversu frábær sýningin hefði verið. Af andlitum hinna fullorðnu mátti lesa að þeim hafði heldur ekki leiðst á meðan sýningunni stóð.

-Ágúst Þór Árnason

 


Nýjast