Inn í skóginn-leikdómur

„Uppsetningin er afrek í öllum skilningi og óhætt að hvetja alla leikhúsunnendur til þess að slást í…
„Uppsetningin er afrek í öllum skilningi og óhætt að hvetja alla leikhúsunnendur til þess að slást í för með LMA Inn í skóginn!,“ segir m.a. í leikdómi.

LMA hefur einhvern veginn einstakt lag á því að toppa sig - með hverri uppfærslu undanfarinna ára hefur skalinn verið sprengdur og áhorfendur verið þess fullvissir að toppnum væri náð! En alltaf skal leynast ás upp í ermi og í þetta skipti birtist hann okkur í formi Íslandsfrumsýningar á stórvirki Stephen Sondheim, Inn í skóginn!

Metnaður LMA er jafn ævintýralegur og efniviður sýningarinnar, en Sondheim og handritshöfundurinn James Lapine tvinna saman mörgum sögupersónum úr þekktustu ævintýrum heimsbókmenntana. Líf og tilvera þessara þekktu persóna skarast svo á frumlegan hátt í ævintýri fyrir fullorðna sem fjallar ekki síst um hættur þess að fá óskir sínar uppfylltar, sambönd foreldra og barna og hvernig foreldrum mistekst iðulega, mikilvægi samkenndar og þess að búa sér til fjölskyldu ( í víðum skilningi.) Verkið er auðvitað samið um það leyti sem alnæmisfaraldur níunda áratugarins náði hámæli og því alls ekki að undra að einn helsti boðskapurinn sé einmitt að fjölskylda er ekki endilega það sem þú fæðist inn í, heldur eitthvað sem þú getur og átt að skapa þér á eigin forsendum, þar sem þér er tekið eins og þú ert. 

Formaður LMA segir í pistli sínum í leikskrá að fólk hafi reynt að tala um fyrir þeim að ráðast í svo metnaðarfullt verkefni, en það er fullkomlega í anda verksins að félagið hafi ekki tekið slíkar átölur til greina. Enda sem betur fer, því Inn í skóginn er metnaðarfull leikhúsveisla! Auðvitað er ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur að velja Sondheim sem semur krefjandi og tæknilega erfiða tónlist, en hljómsveitin flytur hana einstaklega vel og söngurinn er yfir höfuð mjög góður, þó styrkleikar sumra flytjenda liggi frekar í leik en söng og stundum öfugt, þá skila langflestir sínu með glæsibrag. Þýðing Einars Aðalsteinssonar er líka glimrandi góð og ekki á færi hvers sem er að koma Sondheim til skila. Leikmynd og búningar voru skemmtilega leyst og leikmyndin minimalísk á þessu stóra sviði. Stærð sviðsins bar sýninguna þó aldrei ofurliði, en það er ekki síst að þakka framúrskarandi lýsingu Þórodds Ingvarssonar, vel útfærðum dansatriðum og snjöllum sviðslausnum leikstjórans, sbr. skuggamyndirnar sem varpað er á baktjaldið. 

Dansinn er auðvitað sér kapítuli og á stóran þátt í því að sýningin gengur upp án meiri leikmyndar á þessu gríðarstóra sviði. Í dansinum blanda danshöfundar saman fjölbreyttum stílum, allt frá ballet yfir í nútímadans, og kokteillinn er góður! Í einstaka atriðum fannst mér þó dansararnir draga athyglina frá leiknum, helst í rólegri atriðum, en það er ekki oft. 

Hljómsveitin leggur auðvitað grunninn að töfrunum, en útsetningar eru afar góðar og þau skila óvenjulegri og ómstríðri tónlist Sondheim af listfengi og öryggi. Þetta er augljóslega atvinnufólk framtíðarinnar! Það var helst að hljóðblöndunin brygðist söngvurunum á stundum, en dálítið bar á því að of seint væri kveikt á hljóðnemum. 

Of langt mál væri að nafngreina og tala um alla leikarana og söngvarana í svo stórri uppfærslu, þó þau ættu það öll sannarlega skilið. Styrkleikar fólks liggja auðvitað mismikið í leiknum og söngnum, en sumir eru líka jafnvígir á bæði og gefa atvinnufólki ekkert eftir! Verkið er mjög tæknilega erfitt í leik og söng og það er ævintýri líkast hvað LMA skilar því vel!

Vala Fannell sannar það enn og aftur að hún er snjall og næmur leikstjóri og stýrir þessu risavaxna skipi í höfn af öryggi og festu! Uppsetningin er afrek í öllum skilningi og óhætt að hvetja alla leikhúsunnendur til þess að slást í för með LMA Inn í skóginn! Ég myndi spá því að þetta verði seint toppað, en ég er bara svo hræddur við að hafa rangt fyrir mér!

-Vilhjálmur B. Bragason, leikskáld og Vandræðaskáld

 


Nýjast