Hymnodia til Hollywood

Hymnodia. Mynd/Daníel Starrason.
Hymnodia. Mynd/Daníel Starrason.

Kvöldið fyrir Þorláksmessu er föst jólastund Hymnodiu. Á hverju ári fær Hymnodia til sín gest eða gesti til að búa til rólega og hátíðlega jólastemmningu við rökkurljós í Akureyrarkirkju. Tónleikarnir hefjast klukkan níu þegar amstri dagsins er lokið og fastagestir eru farnir að nota þessa stund til að róa sig og finna jólabarnið í sjálfum sér.

Í þetta sinn verður ilmur af kvikmyndaborginni Hollywood saman við hefðbundinn jólailminn við kertaljósin í kirkjunni. Atli Örvarsson kvikmyndatónksáld og tónlistarmaður verður með Hymnodiu ásamt Kristjáni Edelstein gítarleikara sem ljáð hefur hvíta tjaldinu tóna sína einnig. Hver veit nema kvikmyndatónar búi líka í hinum unga og efnilega Birki Blæ sem líka er sérstakur gestur á tónleikunum. Eyþór Ingi Jónsson, stjórnandi Hymnodiu, situr við Hammondinn og stígur sitt harmóníum.

„Við förum í huganum í ævintýraferð og ímyndum okkur að við séum þátttakendur í jólamyndinni í ár!,“ segir í tilkynningu.  Efnisskráin einkennist af kyrrð og friði með rótgróinni jólatónlist í bland við ný og nýleg verk íslenskra höfunda, þau Sigurð Flosason, Árna Harðarson, Kristínu Lárusdóttur, Daníel Þorsteinsson og Michael Jón Clarke. Tvö ný jólalög verða frumflutt, Vetrarmynd eftir Sigurð Flosason og Hljóða nótt eftir Michael Jón Clarke.

Tónleikarnir fara fram laugardagskvöldið 22. desember kl. 21:00. Miðar fást við inngangin en forsala fer fram á tix.is.


Nýjast