Hvetur norðlenskar konur til þátttöku í ljóðasamkeppni

Ég vel viðmælendur út um allt land, konur á mismunandi aldrei sem eru að fást við alls konar störf e…
Ég vel viðmælendur út um allt land, konur á mismunandi aldrei sem eru að fást við alls konar störf eða áhugamál og búa við mismunandi aðstæður,“ segir Kristín Linda Jónsdóttir.

„Við höfum þegar fengið töluverðan fjölda ljóða, en enn er möguleiki á að taka þátt,“ segir Kristín Linda Jónsdóttir ritstjóri Húsfreyjunnar, tímarits Kvenfélagasambands Íslands. Húsfreyjan fagnar 70 ára afmæli sínu í ár og hefur af því tilefni efnt til ljóðasamkeppni þar sem þemað er Kona. Ritstjórinn hvetur norðlenskar konur til að skoða vel í skúffur sínar og athuga hvort í þeim leynist ljóð sem henti samkeppninni.

Hægt er að senda inn ljót til 20. september næstkomandi en úrslit verða kynnt á málþingi og afmælishófi sem haldið verður um miðjan nóvember á Hallveigastöðum. Þar verður farið yfir 70 ára sögu Húsfreyjunnar, fjallað um gildi hennar og framlag til menningar og sögu þjóðarinnar en einnig horft til framtíðar.

Húsfreyjan er flaggskipið

Alls eru starfandi 154 kvenfélög hér á landi í 17 héraðssamböndum og hafa þau staðið að útgáfu Húsfreyjunnar óslitið á sömu kennitölu í 70 ár.  „Húsfreyjan er flaggskip okkar kvenfélagskvenna og hún á gott og öruggt bakland,“ segir Kristín Linda. Sérstaða tímaritsins er að hennar sögn að það er gefið út af sjálfboðaliða- og líknarsamtökum og það heldur utan um sögu og menningararf kvenna.

Kristín Linda hefur stýrt Húsfreyjunni í rúm 15 ár og tók upp undirtitilinn Jákvæð og hvetjandi þegar hún tók við stjórnartaumum og kveðst með því vilja beina kastljósi að því sem til fyrirmyndar er og virki sem hvatning fyrir aðra, veiti þeim innblástur og gleði í sálina.

Fræðandi, skemmtileg og falleg

„Ég vel viðmælendur út um allt land, konur á mismunandi aldrei sem eru að fást við alls konar störf eða áhugamál og búa við mismunandi aðstæður. Þetta er fjölbreyttur hópur kvenna sem allar hafa sína sögu að segja. Ég legg upp með að Húsfreyjan sé fræðandi, skemmtileg og falleg. Hún er fyrir löngu orðin dýrmætur hlekkur í menningarsögu íslenskra kvenna,“ segir Kristín Linda, sem auk þess að stýra hinu 70 ára gamla tímariti starfar sem sálfræðingur í höfuðborginni. Hún á rætur að rekja norður í landi, ólst upp í Fnjóskadal, lauk stúdentsprófi við Menntaskólans á Akureyri og starfaði um 15 ára skeið í banka og við blaðamennsku á Akureyri áður en hún gerðist kúabóndi í Aðaldal.

 


Nýjast