Hús vikunnar: Norðurgata 8; Turninn, Esja.

Lengi vel voru smáar hverfisverslanir, eða „kaupmaðurinn á horninu“ algengar í bænum og snar þáttur í viðskiptum og mannlífi bæjarbúa. Þessar búðir lögðust flestar af, vegna breyttra verslunarvenja, á síðustu tveimur áratugum 20. aldar og um aldamótin voru aðeins örfáar slíkar eftir í bænum. Eina verslun mátti finna á horni Norðurgötu og Gránufélagsgötu, nánar tiltekið við Norðurgötu 8 og var verslað þar fram yfir árið 2010. Norðurgötu 8 reisti Axel Schiöth bakarameistari sem sölubúð árið 1933. Teikningarnar gerði Tryggvi Jónatansson. Húsið er einlyft timburhús á lágum grunni með pýramídalaga þaki, veggir  klæddir steinblikki og bárujárn á þaki.

Árið 1941 kaupir Árni Sigurðsson húsið og verslunin af Axeli og ýmsir versluðu þar síðar undir hinum ýmsu nöfnum. Telja má víst, að býsna margir eigi ljúfar minningar af innkaupum, sendiferðum, sælgæti eða skemmtilegum samskiptum við afgreiðslufólk í Turninum. Lengst af nefndist verslunin þarna einfaldlega Turninn, ekki óalgengt að sjá Turninn Norðurgötu í blaðaauglýsingum, til aðgreiningar frá öðrum söluturnum bæjarins. Þá var þarna um árabil verslunin Esja, og um aldamótin 2000 var þarna Eyrarbúðin, en áður hafði verslun með sama nafni verið starfrækt í Lárusarhúsi á horni Norðurgötu og Eiðsvallagötu. Síðasta verslunin í þessu húsi nefndist Hreiðrið og var hún starfrækt árin 2006-12. Um 2014 var húsið  innréttað sem leigu- eða orlofsíbúð, en meðfylgjandi mynd er tekin þann 16. júlí það ár.

Lesendum er velkomið að senda höfundi fyrirspurnir, ábendingar eða annað slíkt á póstfangið hallmundsson@gmail.com


Nýjast