Hús vikunnar: Lækjargata 18

Búðargil er eitt mest þeirra mörgu gilja sem skera Brekkuna og um gilið liggur Lækjargata. (Fyrir kemur að nafnið Lækjargil heyrist, en þá væntanlega slær saman nöfnum götu og gils). Lækjargata mun vera sú gata bæjarins þar sem meðalaldur húsanna er hvað hæstur, en öll húsin þar eru eldri en 100 ára. Hún er líka ein mjög fárra gatna hér innan þéttbýlis sem enn er ómalbikuð að hluta. Ofarlega í Lækjargötu stendur Lækjargata 18. Húsið er einlyft timburhús á lágum kjallara og með háu risi en vestur- og norðurhluti hússins einlyftur með einhalla, aflíðandi þaki (sk. skúrþaki). Húsið er bárujárnsklætt bæði á veggjum og þaki og einfaldir láréttir póstar eru í gluggum.

Uppruni hússins er raunar nokkuð óljós en það byggðu líklegast þeir Benedikt Ólafsson og Sigurbjörn Sveinsson árið 1880. Var þar um að ræða suður- og austurhluta hússins, þ.e. þann hluta sem er með risþaki, en einlyftu álmurnar eru viðbyggingar frá fyrri hluta 20. aldar. Sjálfsagt hefur ekki veitt af stækkuninni, en á þessum árum og áratugum bjuggu a.m.k. 3-4 fjölskyldur í húsinu samtímis. Árið 1910 bjuggu í húsinu 14 manns og skiptist þá húsið í 18 og 18a svo þá hefur viðbygging þegar verið risin. Enn í dag er húsið parhús og telst norðurhlutinn 18a. Lækjargata 18 er látlaust og snoturt timburhús í góðri hirðu og er til mikillar prýði í þessari  rótgrónu götu. Myndin er tekin þann 21. ágúst 2011.

-Lesendum er velkomið að senda höfundi fyrirspurnir, ábendingar eða annað slíkt á póstfangið hallmundsson@gmail.com


Nýjast