Hressir, kætir og bætir bæði börn og fullorðna

„Þetta unga fólk getur svo sannarlega verið stolt yfir sýningu sem hélt ungum sem öldnum föngnum í n…
„Þetta unga fólk getur svo sannarlega verið stolt yfir sýningu sem hélt ungum sem öldnum föngnum í nær tvo klukkutíma,“ segir í leikdómi. Myndir/Atli Ágúst Stefánsson.

Verkmenntaskólinn á Akureyri eða VMA er ekki gamall skóli. Hann hefur þó náð að setja mark sitt á samfélagið í stóru og smáu og er tvímælalaust einn öflugasti framhaldsskóli landsins. Leikfélag VMA hefur á seinustu árum stimplað sig inn í leiklistarlíf Akureyrar með afgerandi hætti og sýning félagsins á Ávaxtakörfunni eftir Kristlaugu Maríu Sigurðardóttur er örugglega hæsta varðan á þeirri vegferð hingað til. Það eykur svo gildi sýningarinnar með beinum og óbeinum hætti að höfundur allrar tónlistar í Ávaxtakörfunni, Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, skuli vera einn helsti drifkrafturinn í norðlensku tónlistarlífi um þessar mundir.

Líklega eru fá leikverk eða söngleikir betur kynnt á Íslandi en Ávaxtakarfan. Verkið var frumflutt fyrir 20 árum og hefur verið sett upp margoft síðan. Sjónvarpsþættir hafa verið framleiddir og lögin úr leiknum hafa hljómað í heimahúsum sem og á sviði. Söguþráðurinn er sígildur og snýst um kúgun og einelti, þýlyndi en líka og ekki síður kjark, vináttu og samstöðu. Í Ávaxtakörfunni kynnumst við ávöxtum af ýmsum stærðum og gerðum. Fremstur í flokki í orðsins fyllstu merkingu, er Guffi banani, leikin af Erni Smára Jónssyni. Guffi æfir marseringu af miklum krafti og einurð með græna banana (leiknir af Steinar Loga Stefánssyni og Freysteini Sverrissyni) hoppandi og skoppandi í eftirdragi. Bananarnir þrír eru krafmiklir í framgöngu og tilbúnir til að verja vondan málstað einvaldsins. Mótvægið við bananana er Mæja jarðaber leikið af Særúnu Elmu Jakobsdóttur en segja má að það sé aðalpersóna sýningarinnar þótt smátt sé og lengst af fyrirlitið af sjálfsánægðum ávöxtunum.

Mæja jarðaber stendur sig eins og hetja þótt berið láti sig hafa það að „skúra, skrúbba og bóna, fyrir ávextina allt þar til Gedda gulrót, leikin af Arndísi Evu Erlingsdóttur, er allt í einu komin í körfu ávaxtanna þeim til angurs og armmæðu. Mæja sér þarna leik á borði og tekur nærri því án umhugsunar þátt í því að kúga Geddu gulrót sem tekur við hlutverki Mæju sem hin útskúfaða í ávaxtakörfunni. Mæja jarðaber virðist um tíma vera tilbúin til að samsama sig hópnum og vilja frekar geta talið sig með í hópi ávaxtanna, sem leggja bæði ber og grænmeti í einelti ef því er að skipta, frekar en að standa með gulrótinni hinum kúgaða arftaka sínum. Með hugkvæmni og lagni tekst Geddu gulrót að leiða Mæju fyrir sjónir að vinátta og jafnrétti séu vænlegri kostir en einræði og kúgun. Saman snúa þær svo ávöxtunum einum af öðrum á sitt band.

Söngleikurinn er sérlega vel mannaður og ljóst að mikið hefur verið æft. Embla Sól Pálsdóttir, sem leikur Evu appelsínu, á góða spretti sem sjálfhverfan uppmáluð en hún og Rauða eplið, leikið af Alexöndru Guðný Berglind Haraldsdóttur, eru ansi skondnar í keppni sinn um hylli hinna ávaxtanna og yfirvaldsins. Poddi pera, leikinn af Eyþóri Daða Eyþórssyni og Palla pera, leikin af Völu Rún Stefánsdóttur, eru kraftmiklir leikarar og eiga örugglega eftir að láta að sér kveða. Það var þó ekki síst fyrir leikgleði þeirra sem léku mandarínurnar sem gerðu sýninguna lifandi og skemmtilega. Þar fór fremst í flokki Mía Mandarína, leikin af Hörpu Lísu Þorvaldsdóttur, en fast á hæla hennar komu Matti Mandarína, leikinn af Júlíusi Elvari Ingasyni, Martha Mandarína, leikin af Unni Eyrúnu Kristjánsdóttur, María Mandarína, leikin af Eygló Ómarsdóttur og Móna Mandarína leikin af Þórgunni Kristinsdóttur. Ekki má gleyma sjálfum Imma ananas, holdgervingi kúgarans, en Helgi Freyr Gunnarsson, stóð sig með ágætum í hlutverki sem varla getur talist öfundsvert.

Það fer ekki á milli mála að hér hefur verið unnið þrekvirki af öllum sem hlut eiga að máli. Pétur Guðjónsson, sem hefur stýrt sýningum Leikfélags VMA þrívegis á síðastliðnum sex árum, á sérstakan heiður skilið en samstarfsfólk hans hefur heldur ekki látið sitt eftir liggja. Taka má undir þakkir Péturs í sýningarskrá til Jóns Páls, Kristínar Sóleyjar og MAK fyrir að gera það mögulegt að setja söngleikinn upp í Hofi.

Það vekur þó sérstaka ánægju að sjá hversu margir nemendur hafa verið virkjaðir í uppsetningu söngleiksins. „Fólkið bak við tjöldin” félagar í Leikfélagi VMA sem ekki stóðu á sviðinu eiga heiður skilið og ekki ólíklegt að við eigum eftir að heyra meira af einhverjum þeirra á vettvangi íslenskra leikhúsa. Þetta unga fólk getur svo sannarlega verið stolt yfir sýningu sem hélt ungum sem öldnum föngnum í nær tvo klukkutíma. Aðalheiður Anna Ragnarsdóttir (10 ára) var svo vinsamleg að fara með mér á sýninguna og ræddi við mig um efni hennar og frammistöðu leikara. Hún taldi mikilvægum boðskap komið á framfæri með ágætum og leikendur hefðu staðið sig af stakri prýði. Við vorum sammála um að hvetja fólk til að fjölmenna á þær örfáu sýningar sem eftir eru.

-Ágúst Þór Árnason


Nýjast