„Hreindýradraugur“ í myndlistarsal Safnahússins

Lykilverk sýningarinnar „Hreindýrsdraugur“ – Húsavík 2018
Lykilverk sýningarinnar „Hreindýrsdraugur“ – Húsavík 2018

Á morgun föstudag opnar franski listamaðurinn François Lelong sýningu sína „Hreindýradraugur“ í myndlistarsal Safnahússins á Húsavík.

Listamaður að störfum, François í vinnuaðstöðu sinni á Ærlæk.

François Lelong er sjónlistamaður sem í yfir tíu ár hefur unnið með og í landslagi gegnum skúlptúra og innsetningar. Á ferli sínum hefur listamaðurinn unnið að verkefnum víða um heim, gert innsetningar úti í náttúrunni og haldið hefðbundnari sýningar. Efniviðurinn í verkum  François  er náttúrulegur, fengin í því umhverfi sem er kveikjan að, eða er viðfangsefni sýningar.  Í sköpunarferlinu verða þau menningar-, samfélags-, umhverfis- og sögulegu áhrif sem listamaðurinn verður fyrir samtvinnuð verkunum. Efnisöflun og rannsóknir á og í landslagi hafa myndað grunn að óhlutbundnum orðaforða. Línur, sveigjur og slóðar hafa smátt og smátt myndað grunn að sameiginlegu tungumáli sem má greina m.a. í náttúrufræði, fornleifafræði og sögu þar sem  hugmyndin um yfirráðasvæði er sameiginlegt grunnstef.

Elgur centaur Stál - Stevens Point Sculpture Park (Wisconsin / USA) – október 2017

Samband manns, dýrs og náttúru hefur ávallt verið listamanninum hugleikið. François Lelong hefur unnið með samruna þessa með blöndun spendýra, lífhvolf þeirra og tengsl við manninn. Þar liggur grunnurinn að sýningunni sem nú verður opnuð.

Í sýningunni í Safnahúsinu, Hreindýradraugur, sýnir listamaðurinn skúlptúra og teikningar sem birta fjarveru hreindýra á Norðurlandi, þar sem þau áður bjuggu og á hvern hátt þau lifa enn í náttúrunni og hugaheimi manna. Hið horfna dýr birtist meðal annars í beinum, trjám og jurtum. Sýningin er afrakstur af löngu ferli sem hófst árið 2016 þegar François var í listamannadvöl hjá Fjúk Arts Center sem þá var starfrækt á Húsavík. Þá kynntist hann náttúru, samfélagi og efnivið á nærsvæðinu. Þá þegar kviknaði sú hugmynd að listamaðurinn kæmi aftur og héldi sýningu í Safnahúsinu. Snemma í ferlinu urðu það hreindýrin sem fönguðu listamanninn, saga þeirra á Norðurlandi, hvarf þeirra og það sem eftir stendur í náttúru og sameiginlegu minni íbúa. Sumarið 2017 var François í tæpan mánuð á norður- og austurlandi. Á austurlandi hitti hann Unni Karlsdóttur umhverfisssagnfræðing sem hefur rannsakað sögu hreindýra á austurlandi og heldur úti vefsíðu með ýmis konar fræðsluefni um þau. Einnig var hann með Skarphéðni G. Þórissyni sérfræðingi hjá Náttúrustofu Austurlands í nokkurn tíma. Skarphéðinn hefur rannsakað og vaktað hreindýrastofninn á austurlandi. Hann var François m.a. innan handar við efnisöflun fyrir sýninguna. François dvaldi síðan hjá Sveini á Ærlæk í nokkrar vikur fékk þar vinnuaðstöðu og hóf vinnu við verkin. Hugmyndavinnan hélt síðan áfram í Frakklandi yfir veturinn og í lok maí kom François aftur til landins, fór beint á Ærlæk og hefur þar unnið sleitulaust að verkunum sem nú verða til sýnis almenningi.

Homo tarandus Hreindýrshorn, eftirgerð af höfuðkúpu manns – apríl 2016

Sýningin verður opin til ágústloka og er opin alla daga frá 10-18, minnt er á að enginn aðgangseyrir er að sérsýningum í Safnahúsinu. Opnun sýningarinnar er öllum opin. /SJ


Nýjast