Grænkeri sem elskar að gefa af sér

Agnes Fournier sér um matarkistu vikunnar í Skarpi.
Agnes Fournier sér um matarkistu vikunnar í Skarpi.

Agnes Fournier er matgæðingur vikunnar í sumar-Skarpi.

Agnes kemur frá Kanada og hefur starfað um nokkurra ára skeið hjá Norðursiglingu. „Ef þú spyrð mig þá er hjarta mitt íslenskt, ég hef svo mikla ást fyrir þessu landi og fólkinu í því. Ég hef lært svo mikið af heimafólki en nú vil ég gefa til baka af minni reynslu,“ segir Agnes en hún hefur um nokkurt skeið verið grænkeri (vegan) og samþykkti að deila með lesendum Skarps uppáhalds grænkera uppskriftunum sínum.

„Margir minningar úr lífi mínu tengjast mat,- fara út að borða með góðum vinum, eyða tíma með fjölskyldu minni og elda saman. Ég hef alltaf lagt mikið upp úr því að kynnast nýjum menningarheimum og upplifa fjölbreytni í mat og drykk. Af heilsufarsástæðum þurfti ég fyrir tveimur árum síðan að endurskoða mataræði mitt og ákvað að gerast grænkeri (vegan) og það hefur svo sannarleg opnað nýjar dyr fyrir mig. Maturinn minn er svo miklu litríkari núna og það gefur mér alltaf meiri gleði og orku. Ég hef lært svo mikið um hvað gott mataræði getur gert fyrir okkur, bætt heilsu okkar og lífsgleði að nú vil ég deila því með ykkur öllum.“

Litrík sumarmáltíð

Litrík sumarmáltíð

Kjúklingabaunasalat

- Eini dós af kjúklingabaunum (eða baunir að eigin vali)

- 3 fínt skornir tómatar

- 1/2 fínt skorin agúrka

- 1/2 fínt skorin rauðlaukur

- 1/2 bolli af fínt skörnu blómkáli (má sleppa)

- 3 tsk edik (ég notaði hvítvíns edik)

- 1 1/2 tsk salt

- 1/5 bolli fínt skorin steinselja

Aðferð

Byrjið á að marinera laukinn  í skál með ediki og salti. Blandið vel og látið sitja í að minnsta kosti 10 mínútur, síðan má bæta við tómötum og blómkáli og láta marinerast  í 10 mínútur í viðbót. Ef mikill vökvi er í skálinni er gott að hella hluta úr og síðan bæta við steinselju og agúrkum, kryddið með salti og pipar eftir smekk.

 

Ofnbakaðar kartöflur

-  kartöflur

- 1/8 bolli næringarger 

- 1 tsk hvítlauksduft

- 1 tsk paprikuduft

- 2 tsk þurrkað dill

- smá salt 

 Skrælið kartöflurnar, skerið til helminga og sjóðið í 15 mínútur í saltvatni. Þegar kartöflurnar eru soðnar má setja þær í eldfast mót og blanda kryddunum vel saman við þær og baka í ofni við 230 ° C  í 20-25 mínútur eða þar til kartöflurnar eru orðnar fallega gylltar.

Hvítlaukasósa (fyrir kartöflur)

- 1 msk cashew smjör (ég fæ mitt í bónus)

- 1/2 tsk hvítlauks duft

- 1/2 tsk edik

- 1 msk heitt vatn

-  smá salt

Þessa sósu er auðvelt að laga og ég nota hana sem salat dressingu líka. Allt sem þú þarft að gera er að blanda saman ediki, hvítlauksdufti og cashew smjöri, síðan er heitu vatni og salti bætt við. Ef þú vilt hafa sósuna þynnri, þá bætiru meira vatni við en setur minna ef þú villt hafa hana þykkri. Einnig er hægt að bæta við nokkrum kryddjurtum t.d. basiliku eða steinselju.

Maískorn

Maískorn er soðið og síðan grillað. Ég elska að borða mitt með salti og sítrónusafa en það má að sjálfsögðu hafa hvað sem er með því, allt eftir smekk.


Nýjast