Gefur út sína fyrstu hljómplötu

Kjass er listamannsnafn Fanneyju Kristjáns Snjólaugardóttur sem hefur sent frá sér sína fyrstu plötu…
Kjass er listamannsnafn Fanneyju Kristjáns Snjólaugardóttur sem hefur sent frá sér sína fyrstu plötu.

Platan Rætur með norðlensku söngkonunni Fanneyju Kristjáns Snjólaugardóttur er komin út en um djazzplötu er að ræða sem byggir á Þingeyskri sönghefð. Þetta er jafnframt fyrsta plata sveitarinnar Kjass sem Fanney setti saman árið 2012 en auk Fanneyjar skipa sveitina þau Gréta Sigurðardóttir, Mikael Máni Ásmundsson, Birgir Steinn Theodorsson og Óskar Kjartansson. Fanney sér um hljómsveitarstjórn ásamt því að útsetja lögin og syngja.

Í fréttatilkynningu segir að það sé langt frá því sjálfsagt að ung kona úr Mývatnssveit geti gefið út sína eigin hljómplötu en nútímatæknin hefur þó gert ýmislegt mögulegt, meðal annars að gera listafólki kleift að kynna verkefni sín á Karolinafund og það er óhætt að segja að það hafi gengið vel í tilfelli Fanneyjar Kristjáns sem náði söfnunarmarkmiði sínu vel fyrir tímamörk.

Undir sterkum áhrifum frá þingeyskri sönglagahefð

Um plötuna Rætur segir: „Lágstemmdir djasshljómarnir eru undir sterkum áhrifum frá þingeyskri sönglagahefð og passa afar vel með fyrsta kaffibolla á sunnudagsmorgni eða eða til að ylja sér við á dimmu vetrarkvöldi. Hljómplatan verður aðeins gefin út í 500 eintökum og útgáfan er styrkt af Hljóðritasjóði Rannís, Sparisjóði suður Þingeyinga og Menningarsjóði FÍH.

Fanney starfar sem tónlistarkona á Akureyri og sækir tónlistararf sinn til Mývatnssveitar þar sem hún ólst upp. Hún nam við tónlistarskóla FÍH og hlaut meðal annars styrk úr sjóði Vilhjálms Vilhjálmssonar. Hún hefur gert djassútsetningar af íslenskum þjóðlögum, haldið fjölda tónleika jafnt með eigin tónlist og tónlist annara og samið tónlist fyrir kvikmyndir.

 


Nýjast