Jólaaðstoð upp á tvær og hálfa milljón

Forsvarsmenn nokkurra stéttarfélaga sem veittu styrkinn og félaganna fjögurra sem hann fengu.
Forsvarsmenn nokkurra stéttarfélaga sem veittu styrkinn og félaganna fjögurra sem hann fengu.

Átta stéttarfélög í Eyjafirði afhentu í vikunni Mæðrastyrksnefnd Akureyrar, Hjálparstarfi kirkjunnar, Hjálpræðishernum og Rauða krossinum styrk að upphæð 2.530.000 kr. Styrkurinn er notaður í samstarfsverkefni þessara fjögurra samtaka sem var sett á laggirnar til að einfalda málið til að sækja um aðstoð fyrir jólin, en nú þarf einungis að sækja um á einum stað.

„Rétt er að vekja athygli á því að þessir aðilar aðstoða fólk um allan Eyjafjörð, frá Fjallabyggð að Grenivík. Þetta er í sjötta sinn sem þessi samtök taka höndum saman fyrir jólin og veita þeim aðstoð sem þurfa. Í ár var úthlutað svipuðum fjölda styrkja og á síðasta ári,“ segir í tilkynningu.

Félögin átta sem færðu samtökunum styrk eru Eining-Iðja, Byggiðn – Félag byggingamanna, Félag málmiðnaðarmanna Akureyri, Félag verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni, Kjölur stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu, Sjómannafélag Eyjafjarðar, Sjómannafélag Ólafsfjarðar og Berg félag stjórnenda.


Nýjast