„Ég grét, ég viðurkenni það”

Harpa Fönn Sigurjónsdóttir á verðlaunahátíð Grímunnar. Mynd/aðsend
Harpa Fönn Sigurjónsdóttir á verðlaunahátíð Grímunnar. Mynd/aðsend

Harpa Fönn Sigurjónsdóttir var nýlega tilnefnd til Grímuverðlauna fyrir bestu tónlist í leikverki. Hún stofnaði leikhópinn Lakehouse ásamt sambýlismanni sínum og um þessar mundir er hún að virkja landsbyggðarfólk til listsköpunar í gegnum verkefnið „Einangrun”.

Harpa fönn ólst upp í Kaldbak á Húsavík en fluttist til höfuðborgarinnar til að fara í menntaskóla og hefur að mestu búið þar síðan. Hún er lögfræðingur að mennt og hefur undanfarin fimm ár starfað sem slíkur fyrir Myndstef en hún lagði áherslu á höfundaréttarmál í námi sínu. Hún hefur þó lengst af starfað með einum eða öðrum hætti við listsköpun og skipulagningu listviðburða.

Harpa stofnaði leikhópinn Lakehouse fyrri tveimur árum með sambýlismanni sínum Árna Kristjánssyni leikstjóra. Það er ekki hægt að segja annað en að leikhópurinn hafi slegið í gegn. „Hugsunin var að setja upp bresk verk á Íslandi og íslensk verk í Bretlandi. Fyrsta verkið sem við settum upp heitir í samhengi við stjörnurnar og er breskt margverðlaunað leikverk. Við fengum heimild til að þýða það og setja upp hér á landi. Settum það upp í Tjarnabíói í fyrra og það er skemmst að segja frá því að það fékk frábærar viðtökur og góða dóma. Ég fékk m.a. Grímu-tilnefningu fyrir tónlist í því verki,” segir Harpa stolt.

Hvernig tilfinning var það?

„Ég grét, ég viðurkenni það. Ég er nýbúin að eignast mitt fyrsta barn, Ylfing. Þegar maður eignast barn þá breytist allt í lífinu. Ég var farin að hugsa að nú þyrfti ég að fá mér dæmigerða 9-5 vinnu. Nú þyrfti ég að fara eiga pening og kaupa sófa, bíl og eitthvað svona. Þarna er ég ekki búin að semja tónlist í meira en ár. Þannig að þessi tilnefning kom á fullkomnum tímapunkti og var mér ótrúlega dýrmæt.”

Um þessar mundir er er Lakehouse með nýtt verk í vinnslu sem nefnist Einangrun. „Þetta er uppáhaldsverkefnið mitt. Einangrun er verk sem er ekki búið að semja og við vitum ekkert hvernig það verður. Það eina sem við vitum er að við viljum fá sögur frá fólkinu, frá íslendingum úti á landi. Við settum meira að segja skilyrði að þátttakendur mættu ekki vera frá Reykjavík ef það ætlar að senda inn handrit. Það er það mikið atriði fyrir okkur að fá efni frá landsbyggðinni að við gerðumst þetta djörf. Þetta snýst um það að fólk sendir á okkur örsögur eða handritsbúta og næsta vetur fáum við ritstjóra eða handritshöfund til að taka þessa búta og búa til heildstætt leikverk úr þeim.“

 

Viðtalið við Hörpu má lesa í heild sinni í prentútgáfu Skarps

- Skarpur, 14. júní


Nýjast