Bjóða bæjarbúum á söngsal í Hof

Fyrr í vetur fjölmenntu grunnskólakrakkar Akureyrar í Hof í tengslum við Söngvaflóð en nú er komið a…
Fyrr í vetur fjölmenntu grunnskólakrakkar Akureyrar í Hof í tengslum við Söngvaflóð en nú er komið að leikskólakrökkunum. Mynd/Þröstur Ernir.

Tónlistarskólinn á Akureyri og leikskólar bæjarins bjóða öllum bæjarbúum á söngsal í Hofi í byrjun febrúar. Nú í vetur hófst nýtt samstarfsverkefni Tónlistarskólans, grunnskólanna og leikskólanna á Akureyri og kallast það Söngvaflóð. 

Dagana 6. til 8. febrúar er komið að því að tveir elstu árgangarnir á leikskólunum, börn fædd 2012 og 2013, leyfi öllum að heyra hvað þau hafa verið að syngja í vetur.

„Þessir hressu krakkar munu ásamt blásarasveit Tónlistarskólans flytja lög úr bókinni Trommur og Töfrateppi eftir Soffíu Vagnsdóttur tónmenntakennara og núverandi sviðsstjóra fræðslusviðs. Allir söngsalirnir hefjast kl. 10,“ segir í tilkynningu.

Þriðjudaginn 6. febrúar hefja Naustatjörn, Hulduheimar og Iðavöllur veisluna. Miðvikudaginn 7. febrúar koma Krógaból, Lundarsel og Kiðagil í Hof
og síðasta daginn, fimmtudaginn 8. febrúar er komið að Hólmasól, Tröllaborgum og Pálmholti. Allir eru hjartanlega velkomnir og er aðgangur ókeypis.


Nýjast