Ástin sigrar allt

Úr sýningunni Lovestar sem Leikfélag Menntaskólans á Akureyri sýnir í Hofi.
Úr sýningunni Lovestar sem Leikfélag Menntaskólans á Akureyri sýnir í Hofi.

Eftir að hafa orðið vitni að magnaðri uppsetningu Leikfélags Menntaskólans á Akureyri (LMA) á söngleiknum Anný á síðasta ári þótti undirritaðum ólíklegt að leikfélaginu tækist að endurtaka leikinn hvað þá að toppa þá sýningu á komandi árum. Nú sléttu ári síðar er ljóst að LMA hefur tekist hið ótrúlega með uppsetningu á söngleikjagerð vísindaskáldsögunnar LoveStar eftir Andra Snæ Magnason (útg. 2002) undir leikstjórn Einars Aðalsteinssonar. Það er ljóst að Einar fer ekki með fleipur í pistli sínum í leikskrá þegar hann fullyrðir að bylgjur hópsins hafi passað vel saman strax í upphafi og í allri hógværð þakkar hann árangurinn dugnaði, aga og samvinnu hópsins sem að verkinu stendur.

Leikurinn segir frá alþjóðlega stórfyrirtækinu LoveStar en það hefur aðsetur á Hrauni í Öxnadal. Fyrirtækið hefur fundið aðferð til að reikna út af fullkomnu öryggi hvaða tvær manneskjur hæfa hvor annarri þannig að óþarft er að láta sér detta í hug að tilfinningar viðkomandi geti komist að annarri niðurstöðu. Stofnandi og forstjóri LoveStar er Íslendingur og gegnir sama nafni og fyrirtækið. Edda Sól fer með hlutverk LoveStar af miklu öryggi. Það er magnað að fylgjast með manískri leit hennar að svari við hinstu rökum tilverunnar og sjá hvernig örvæntingin nær tökum á henni eftir því sem líður á leikinn og ljóst verður að fyrirtækið hefur gengið of langt í markaðssetningu og rannsóknum á þeim þáttum mannlegrar tilveru sem aldrei verður hægt að skýra til fulls. Segja má að straumhvörf verði í lífi LoveStar þegar aðstoðarkona hennar kemst að raun um áhrifamátt bænarinnar með því að fá „tilraunadýrið“ til að syngja „Heyr, himna smiður” eftir Kolbein Tumason og Þorkel Sigurbjörnsson. Þetta er eitt áhrifamesta atriði sýningarinnar.

Örlög unga kærustuparsins Indriða og Sigríðar er hinn rauði þráður sögunnar. Parið er yfir sig ástfangið í byrjun verksins og ekki í vafa um að fá innan tíðar staðfestingu á réttu makavali. Þau Indriði og Sigríður verða því fyrir miklu áfalli þegar Sigríður fær bréf um að hennar „eini rétti“ samkvæmt reikniformúlu LoveStar sé Norðmaðurinn Per Möller. Eftir að hafa streist á móti um tíma gefst Sigríður upp fyrir vinkonuhópnum og fellst á að fara til fundar við Norðmanninn. Það verður þó enginn ástarfundur og í ljós kemur að Per Möller, sem leikinn er af Ingvari Þóroddssyni, er hið versta illmenni. Tilþrif Ingvars í hlutverki norska óþokkans eru mögnuð svo ekki sé meira sagt (og hefði hvaða atvinnuleikari sem er verið fullsæmdur af frammistöðunni). Það sama á við um leik Öglu Arnardóttur í hlutverki Rögnu, yfirmanns ÍSTAR, stemmingsdeildar LoveStar. Agla og Ingvar sýndu okkur hvort með sínum hætti hinar dekkri hliðar mannsins. Svo rammt kvað að í leik Öglu að undirrituðum var hætt að standa á sama.

Aðrir leikarar stóðu sig allir með miklum ágætum og skiluðu hlutverkum sínum með sóma. Þessi saga Andra Snæs virðist henta nemendaleikhúsi framhaldsskóla sérstaklega vel enda eru flestar persónur leiksins á svipuðum aldri og nemendurnir sjálfir. Það sem vekur þó athygli er hve þeir sem leika upp fyrir sig í aldri gera það áreynslulaust og eðlilega. Í því sambandi verður ekki hjá því komist að nefna Bergþóru Huld í hlutverki mömmu Indriða en hún lék einnig Hildigunni, vinkonu Sigríðar. Var ekki að sjá að hún hefði nokkuð fyrir því að stökva upp og niður í aldri eftir því sem þörf var á. Allur söngur var með miklum ágætum og átti kórinn sinn þátt í því. Sömuleiðis var hljómsveitin örugg í flutningi og atvinnumannsbragur á öllu saman. Síðast en ekki síst ber að nefna dansara sýningarinnar en þeir voru einstaklega vel samhæfðir og komu ágætlega sömdum dönsum til skila með mikilli prýði.

Vinsældir sögunnar LoveStar benda til þess að höfundi hafi tekist að slá á strengi vonar í hjörtum lesenda þrátt fyrir þá blásvörtu framtíðarsýn sem dregin er upp verkinu. Það fer ekki á milli mála að sú ákvörðun stjórnar LMA að leita til Einars Aðalsteinssonar með leikstjórn verksins hefur hitt beint í mark. Hvernig sú ákvörðun kom svo til að færa LoveStar í búning söngleiks er á huldu en hún lyftir sögunni óneitanlega og ekki annað að heyra en að höfundurinn sjálfur hafi verið hinn ánægðasti með útkomuna. Notkun ljósa í sýningunni var hugvitsamleg og áhrifarík. Búningar, hár og förðun voru til fyrirmyndar og ekki má gleyma leikmyndinni sem var einstaklega vel hugsuð og útfærð. Það er sjálfsagt að geta þess að málmsmiðjan Útrás á heiðurinn af smíði hennar. Þótt það sé smáatriði í sjálfu sér þá er það miður að þeirra laga sem flutt eru á sýningunni skuli ekki getið í leikskrá. Úr því má eflaust bæta með því að upplýsa um heiti laganna og höfunda þeirra á heimasíðu Menntaskólans á Akureyri.

-Ágúst Þór Árnason

 


Nýjast