„Vorum innblásnir af gömlum mannvirkjum"

Eins og þessi líkan mynd af væntanlegri brú sýnir mun hún setja sterkan svip á bæinn en áætlað er að…
Eins og þessi líkan mynd af væntanlegri brú sýnir mun hún setja sterkan svip á bæinn en áætlað er að framkvæmdinni ljúku í júní næsta sumar.

Smíði á nýrri göngu- og hjólabrú við Drottningarbraut á Akureyri er í bígerð en nýlega voru tilboð opnuð í fyrsta verkhluta á framkvæmdinni og er áætlað að brúin verði klár næsta sumar. Víst er að hin nýja brú mun setja svip sinn á Akureyri enda um stóra og áberandi framkvæmd að ræða. Þar sem brúin stendur andspænis Samkomuhúsin hefur hún fengið nafnið Leikhúsbrúin.

Arnar Birgir Ólafsson, landslagsarkitekt hjá Teiknistofu Norðurlands, hannaði brúna en hann segir verkefnið eiga sér nokkuð langan aðdraganda eða til ársins 2013.

„Sigfús Karlsson sem þá sat í framkvæmdaráði hafði samband við okkur og bað um aðstoð við að móta tillögu að nýjum göngustíg frá Torfunefsbryggju að Leiruvegi. Á þeim tímapunkti voru komnar grófar hugmyndir að þessum stíg en hann átti að vera byggður upp með svipuðum hætti og hægt er að sjá við Sæbrautina í Reykjavík og víðar. Sigfús sá fyrir sér að byggja stígana ekki bara upp með
malbiki, heldur einnig timbri til að gera svæðið meira aðlaðandi og hvetjandi fyrir fólk að staldra við,“ segir Arnar.

„Þar sem við vorum búnir að verja miklum tíma í að búa til teikningar af gömlu Akureyri í tilefni 150 ára afmæli bæjarins þá vorum við innblásnir af öllum þeim gömlu mannvirkjum, bryggjum, timburgálgum og bátum sem stóðu í fjörunni forðum daga og voru svo sterkur hluti umhverfisins. Eins var áberandi hve mikill skortur er á fjörum í bænum og því var ákveðið að fara aðra leið en gert var með Strandgötuna t.d. þar sem heilmikill grjótveggur var reistur.“

Tillaga að nýja stígnum fjallaði um að endurskapa vistkerfi fjörunnar með því að búa til nýja fjöru þar sem það væri hægt. Notuð voru gömul kort og loftmyndir af bænum til að finna gömlu útlínur sjávarins og þær línur voru færðar austur fyrir Drottningarbraut og aðlagaðar að nýju umhverfi og annarri sjávardýpt. 

Gömlu virðulegu húsin sem fyrirmynd 

„Í byrjun ársins 2014 ákvað framkvæmdaráð Akureyrarbæjar að fara þessa leið með uppbyggingu stígsins en hjartað í verkefninu er umrædd
Leikhúsbrú sem nú er fyrirhugað er að reisa,“ segir Arnar. Hlutverk hennar að sögn Arnars er m.a. að skapa hlýlegt umhverfi fyrir íbúa og gesti til að staldra við og njóta nálægðar við Pollinn. „Eins er hún staðsett þannig að hún skapi áhrifaríkt samspil með listaverkinu Siglingu og hefur í bakbrunni Samkomuhúsið, gömlu húsin þar í kring og Akureyrarkirkju svo eitthvað sé nefnt. Útlit brúarinnar var hannað með þessi gömlu virðulegu hús í huga.“

Spennandi andrúmsloft í myrkrinu

Eins og glöggir vegfarendur stígsins hafa tekið eftir eru sveigðar línur stígsins rofnar með með lítilli vík inn að Drottningarbraut og síðustu fjögur sumrin hefur fólk þurft að fara þar um nokkurs konar hjáleið. Þetta breytist þegar brúin sem stígurinn byggist á kemur.

„Brúin verður um 86 metra löng og jafnbreið og stigurinn sitt hvoru megin við. Hún verður yfirbyggð á 15 metra kafla þar sem hægt verður að fara út á svalir að austan og vestan til að njóta útsýnisins án þess að trufla hjólandi eða gangandi umferð. Allt efni í brúna er valið með það í huga að mannvirkið geti staðið traust og lengi við ströndina. Þá verður brúin upplýst á svipaðan hátt og fjörustígurinn og mun því á kvöldin og í næturmyrkrinu skapa spennandi andrúmsloft með listaverkinu Siglingu sem einnig verður upplýst,“ segir Arnar. 

Nafnið á brúnna var valið til heiðurs leiklistinni á Akureyri en ófáar leiksýningarnar hafa verið haldnar í nágrenni brúarinnar allt frá árinu 1860. Vonir standa til að brúin verði formlega vígð þann 17. júní næsta sumar.

 


Nýjast