Vits er mér vant

Ég er oft að velta því fyrir mér hvers vegna svo margar konur finna karlmönnum allt til foráttu. Þeir virðast eiga sök á öllu illu. Flest erum við alin upp við að sýna fólki eðlilega kurteisi. Hvort sem það er uppeldinu að þakka eða meðfæddri eðlisávísun karla þá kunna þeir sig flestir í návist kvenna. Þeir strunsa ekki á undan sinni dömu í veislusal eða aka framhjá konu sem er að skipta um dekk í myrkri og hríðarbyl úti í vegarkanti. Þeim virðist eðliegt að sýna konum fyllstu kurteisi.

Öðru máli gegnir um margar konur. Þeim finnst ekkert athugavert að kalla karlana öllum illum nöfnum svo sem frekjuhunda og karlpunga. Ef karlar tækju upp á því að tala um kerlingar með áþekkum viðbæti held ég að konum þætti sér alvarlega misboðið.

Ef karlar vilja standast ýtrustu kröfur vandlátra kvenna er þeim nokkur vandi á höndum. Þeir eiga að vera mjúkir menn en þeir eiga líka að vera harðir. Báðar tegundirnar eiga þó á hættu að vera taldar algjörlega misheppnaðar. Mjúku ljúflingarnir verða of fyrirsjáanlegir og óspennandi þegar til lengdar lætur. Hörðu töffararnir eru meira sjarmerandi, en gallinn við þá er sá að ef þeir sýna konum verulegan áhuga þykja þeir oftar en ekki bölvaðir dónar og jafnvel kynferðislega brenglaðir.

Ég held að það geti ekki verið gott fyrir unga drengi að alast upp við þetta neikvæða tal um karlmenn sí og æ. Tæplega mun það stuðla að sjálfstrausti þeirra og lífsgleði. Eins held ég að það hljóti að vera ömurleg tilhugsun fyrir stelpurnar að mega búast við því að strákarnir sem þær eru skotnar í séu upprennandi dónar og drullusokkar.

Mig skortir allan skilning á því hvers vegna svo margar konur telji sig þurfa að berjast svo ákaflega við „feðraveldið“. Í einfeldni minni hélt ég að feður væru löngu hættir að ráðskast með líf dætra sinna. Á þeim tíma þótti ungum stúlkum best borgið með því að eignast vel stæðan eiginmann og helst af „góðum ættum“. Stjórnsemin hefur því sennilega verið sprottin af umhyggju einni saman. Ég held raunar að mæðurnar hafi mótað framtíð dætra sinna meira en feðurnir með því að búa þær sem best undir húsmóður- og eiginkonuhlutverkið. Best af öllu var ef hægt var að koma stelpunum í vist á „betri heimilum“ þar sem þær gátu lært fyrirmyndar húshald, fínar hannyrðir og aðrar kvenlegar dyggðir.

Þessir uppeldishættir heyra nú fortíðinni til. Konur eru lausar undan öllu foreldraveldi. Þær eru frjálsar og geta gert allt sem þær vilja. Hvort sem þær kjósa að gerast togarasjómenn, vísindamenn, prófessorar, ýtustjórar eða hvað annað sem hugur þeirra stendur til, eru þeim allir vegir færir. Karlar skipta sér ekkert að því.

Mér þykir líka mjög einkennilegt að karlar sem nú eru að nálgast miðjan aldur skuli ekki þykja hótinu skárri en gömlu durtarnir þegar þess er gætt að flestir eru þeir svo til eingöngu aldir upp af konum, allt frá leikskólaaldri og fram undir fullorðinsár.

Ég hef nú nokkuð langan veg farið án þess að hafa mætt nokkrum af þessum ömulegu karldólgum, þó nærri hafi legið eitt sinn þegar ég var óheppin með sessunaut í rútubíl. Engan skaða hlaut ég þó af, fannst bara ferðalagið óþægilega langt. Kannski er ég bara svona heppin eða mig skortir næmi og innsæi til að skynja hið illa eðli karla. Svo getur verið að skortur á kvenlegum þokka hafi orðið mér vörn gegn óviðurkvæmilegri hegðun þeirra.

En hver sem ástæðan er finnst mér gott að hafa ekki kynnst neinum leiðinda karldólgum. Öll erum við nú sæmileg svona innst inni og ættum því að geta metið kosti hvers annars og umborið gallana, hvoru kyninu sem við tilheyrum.

- Skarpur, 11. maí 2017

Gleðilegt sumar.

Sigrún Baldursdóttir (Lóla).


Nýjast