Villi Wilson fluttur heim og kominn á Fabrikkuna

„Ég hef alltaf haft þörf fyrir nýjar áskoranir,“ segir Vilhelm Einarsson, nýr rekstrarstjóri Hamborg…
„Ég hef alltaf haft þörf fyrir nýjar áskoranir,“ segir Vilhelm Einarsson, nýr rekstrarstjóri Hamborgarafabrikkunar á Akureyri.

Vilhelm Einarsson, oft kallaður Villi Wilson, tók á dögunum við starfi rekstrarstjóra Hamborgarafabrikkunnar á Akureyri. Villi, sem er borinn og barnfæddur Akureyringur og Þórsari, er reynslubolti í veitingageiranum. Hann stofnaði og rak pizzukeðjuna Wilson‘s um árabil og síðasta verkefni Villa var að setja Shake&Pizza á laggirnar með þeim Simma og Jóa í Keiluhöllinni í Egilshöll.

„Ég var búinn að vera í eigin rekstri í áratug þegar að ég hitti Simma og Jóa og þeir sannfærðu mig um að taka með þeim nýtt pizzaverkefni, Shake&Pizza. Það gekk frábærlega og í dag er Shake&Pizza með vinsælli veitingastöðum höfuðborgarsvæðisins,“ segir Villi.

En hvernig kom til að Villi flutti heim til Akureyrar og tæki við Fabrikkunni? „Ég hef alltaf haft þörf fyrir nýjar áskoranir. Strákunum fannst vanta smá kraft í Fabrikkuna fyrir norðan og nefndu þetta við mig svona í framhjáhlaupi. Það hafa orðið þónokkrar breytingar í mínu persónulega lífi undanfarið og það hentaði mér mjög vel að flytja heim til Akureyrar. Hamborgarafabrikkan er gríðarlega gott vörumerki og frábær staður, og mér finnst virkilega gaman að fá að spreyta mig á þessu verkefni.“

Hamborgarafabrikkan opnaði á jarðhæð Hótel Kea á Akureyri í maí árið 2013 og er því að verða 5 ára. En mun Villi gera einhverjar breytingar á Fabrikkunni fyrir norðan? „Fabrikkan er náttúrulega mjög vandað og fastmótað konsept. Ég fæ þó fullt leyfi til að fá útrás fyrir minn persónulega metnað. Ég hef alltaf lagt upp með að hafa frábæra stemningu í starfsmannahópnum og ég tel vera mikið sóknarfæri fyrir Fabrikkuna á Akureyri þegar kemur að fjölskyldum og barnafólki. Þar mun ég setja áherslurnar, í það minnsta fyrst um sinn,“ segir Villi.


Nýjast