Vill tryggja öryggi vegfarenda með göngu- og hjólastíg

Svalbarðsströnd.
Svalbarðsströnd.

Nýr sveitarstjóri í Svalbarðsstrandarhreppi segir mikilvægt að halda áfram með þær áætlanir að koma upp hjóla­ og göngustíg milli sveitarfélagsins og Akureyrar. Eins og Vikudagur greindi frá í fyrrasumar hefur Svalbarðsströnd unnið að því að koma á legg göngu­ og hjólastíg frá Vaðlaheiðargöngum og yfir Leirurnar til Akureyrar frá árinu 2014.

Verkefnið hefur legið í dvala undanfarið og ekki tekist að tryggja fjármagn í það.

„Mín persónulega skoðun er sú að hjóla­ og göngustígur sé mjög mikilvægur og brýnt að við gerum allt sem hægt er til þess að tryggja öryggi gangangi og hjólandi vegfarenda. Um leið og við hvetjum til heilsueflandi samgöngumáta,“ segir Björg Erlingsdóttir sveitarstjóri Svalbarðsstrandarhrepps.

Þrjú sveitarfélög auk opinberra fyrirtækja eiga aðkomu að stígnum milli Svalbarðsstrandar og Akureyrar. Í grófum dráttum gæti stígurinn kostað um 60 milljónir króna.

„Það þarf að nást samstaða um að­ komu hvers og eins. Verkefnið er Svalbarðsstrandarhreppi ofvaxið en með samvinnu og þátttöku heimamanna og stofnana ríkisins verður stígurinn vonandi að veruleika,“ segir Björg.


Nýjast