Vilja rafmagnsferju til og frá Hrísey

Hrísey.
Hrísey.

Á íbúafundi tengdum Brothættum byggðum í Hrísey á dögunum var rædd sú hugmynd að fá nýja ferju sem gengi eingöngu fyrir rafmagni. Kominn væri tími á orkuskipti í samgöngum til og frá Hrísey. Helga Íris Ingólfsdóttir, verkefnisstjóri „Brothættra byggða“ í Hrísey og Grímsey, segir að Hrísey hafi græna ímynd og að mörg markmið Byggðaþróunarverkefnisins „Hrísey perla Eyjafjarðar“ snúist um það.

„Sæfari er  kominn til ára sinna og það þarf að fara að huga að endurbótum á honum eða hreinlega ráðast í endurnýjun. Það er búið að gera úttekt á hagræðingaráhrifum þess að láta rafæða núverandi ferju og það á að borga sig upp á tíu árum. En svo kom einnig fram á íbúafundinum að kannski væri betra að hafa nýrri og léttari ferju sem myndi þá eyða minna rafmagni.“

Helga Íris segir að Hrísey sé kjörinn staður til að hafa ferju sem gengur fyrir rafmagni. „Ferðatíminn er stuttur og ferjan gæti hlaðið sig á milli ferða.“ Hún segir að næstu skref sé að kynna hugmyndina fyrir stjórnvöldum. „Það veltur svo á ríkinu og Vegagerðinni hvort af þessu geti orðið,“ segir Helga Íris.

„Íbúar í Hrísey eru spenntir fyrir því að gera meira úr hinni grænu ímynd sem eyjan hefur og nota hana til þess að laða til sín ferðamenn, fyrirtæki, fjárfesta og líka nýja íbúa. Orkuskipti í ferjusamgöngum yrðu bara til þess að styrkja þær áætlanir enn frekar og renna styrkari stoðum undir samfélagið.“  


Nýjast