Vikudagur kemur út í dag

Vikudagur kemur út í dag, fimmtudag. Í blaðinu má finna efni af ýmsu tagi. Sjónum er beint að Háskólanum á Akureyri, rætt er við Eyjólf Guðmundsson rektor um helstu málefni sem í brennidepli eru um þessar mundir. Viðburðarríku afmælisári er lokið og nýjar áskoranir blasa við starfsfólki. Aldrei hafa fleiri umsóknir um skólavist borist og nú á liðnu vori. Mest er aukning á hug- og félagsvísindasviði, en margir sækja um í lögreglufræði, vinsældir þess náms hafa farið fram úr björtustu vonum. Eyjólfur ræðir aðgangstakmarkanir sem grípa hefur þurft til. Háskólinn á Akureyri hefur vaxið og dafnað frá því til hans var stofnað haustið 1987, námsframboð aukist og starfsfólki fjölgað. Staðan er sú nú að ekki er stefnt að auknum nemendafjölda né heldur að auknu framboði háskólanáms umfram tæknigreinar.  

Fram kemur einnig í blaði dagsins að miklar rakaskemmdir sem leiddu til myglu og sveppagróðurs komu upp í eldra skrifstofuhúsnæði Háskólans á Akureyri. Búið er að loka húsinu, en kostnaður við viðgerð er áætlaður um 200 milljónir króna. Viðhald sat á hakanum eftir efnahagshrunið fyrir áratug og kemur með þessu hætti harkalega í bakið á mönnum.

Þá er fjallað um heilmiklar framkvæmdir sem Norðurorka stendur í og vart hafa farið fram hjá vegfarendum um Akureyri. Fyrsti áfangi í lagningu Hjalteyrarlagnar stendur yfir, en Akureyringar sækja í meira mæli en áður sitt hitaveituvatn á svæði umhverfis Hjalteyri.

Það vantar 80 milljónir króna upp á að ljúka megi uppsetningu aðflugsbúnaðar á Akureyrarflugvelli. Búið var að tryggja 100 milljónir í það verkefni, en kostnaður reyndist meiri en fyrstu áætlanir gera ráð fyrir. Tafir á uppsetningu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir ferðaþjónustu fjórðungsins í för með sér.

Íþróttirnar eru á sínum stað, matarhornið sömuleiðis, fjallað er um nýjan barnasöngleik sem sýndur verður í tengslum við Handverkshátíð í næsta mánuði og glænýtt fjós á Syðri-Bægisá. Þá er og greint frá því að bæta á við tveimur nýjum tjaldflötum við Hamra, ferðafólki fjölgar og það er með æ stærri vagna af ýmsu tagi með í för. Tjaldsvæðið við Þórunnarstræti stenst ekki lengur nútímakröfur um aðbúnað og því þarf að ákveða innan tíðar hvort byggja eigi þar upp eða loka svæðinu.


Nýjast