Vikudagur kemur út í dag

Í Vikudegi sem kemur út í dag er m.a. ítarlegt viðtal tónlistarmanninn Rafn Sveinsson, eða Rabbi Sveins eins og hann er kallaður í daglegu tali. Hann hefur lifað og hrærst í tónlist allt sitt líf. Hann hefur verið fyrirferðarmikill í tónlistarlífinu á Akureyri undanfarna áratugi og leikið með ýmsum hljómsveitum og verið með sínar eigin hljómsveitir. Hann hefur samið mikið af textum í gegnum tíðina og lagið Æskuást, sem Erla Stefánsdóttir söng í kringum árið 1960, var t.d. eitt allra vinsælasta lagið hér á landi á þeim tíma en Rabbi gerði einmitt textann við lagið. Vikudagur kíkti í kaffi til Rabba Sveins og spjallaði við hann um tónlistina og margt fleira.

-Fundur um framtíð Listagilsins á Akureyri var haldin í vikunni en Listagilið stendur á ákveðnum tímamótum. Hlynur Hallsson, safnstjóri á Listasafninu, segir fundinn hafa verið góðan en það sem helst hafi verið til umræðu hafi verið leiðir til að minnka bílaumferð og auka umferð gangandi og hjólandi vegfarenda um götuna.

-Pollamót Þórs fyrir eldri knattspyrnupilta- og stúlkur á landinu verður haldið í 31. skiptið á Þórssvæðinu á Akureyri um helgina, dagana  6. og 7. júlí. Stefnt er að því að mótið verði sannkölluð fjölskylduhátíð og m.a. verða Hoppukastalar á afgirtu svæði fyrir börn báða dagana. Þá hófst N1-mót KA í fótbolta í gær  og stendur fram til laugardagsins 7. júlí. Alls eru 188 lið á mótinu í ár og hafa liðin aldrei verið fleiri.

-Hreinn Halldórsson, alþýðulistamaður, hefur undanfarin ár skapað tréskúlptúra/styttur í frítíma sínum. Við heimili hans á Oddeyrinni er stór bakgarður og þar eiga allar stytturnar sinn stað en öll verkin bera sín nöfn og séreinkenni. Hreinn hefur undanfarnar vikur tekið á móti 200 leikskólabörnum á Akureyri sem hann hefur boðið í heimsókn.

-Arnar Már Arngrímsson rithöfundur er í nærmynd og svarar spurningum um lífið og tilveruna. Matarhornið er á sínum stað og í sportinu er fótboltann fyrirferðarmikill.  

Þetta og meira til í Vikudegi í dag. Áskriftarsíminn er 460-0750 og 860 6751. Einnig er hægt senda póst á askrift@vikudagur.is


Nýjast