Viðbúnaður eykst á SAk vegna Covid 19

Búið er að halda eina æfingu í móttöku og innlögn á sýktum einstaklingi á Sjúkrahúsinu á Akureyri.
Búið er að halda eina æfingu í móttöku og innlögn á sýktum einstaklingi á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Viðbúnaður vegna COVID-19 þéttist dag frá degi á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk). Ekki eru neinir sýktir einstaklingar á upptökusvæði sjúkrahússins en fjórir starfsmenn eru í sóttkví og eru þeir án einkenna. Þetta kemur fram í pistli Bjarna Jónassonar forstjóra SAk á heimasíðu SAk.

Rúmlega 900 manns eru í sóttkví á landinu öllu, þar af 34 á Norðurlandi eystra. Staðfest smit eru 126.

Á heimasíðunni Sjúkrahússins tíundar Bjarni þær aðgerðir sem komnar eru til framkvæmda eða eru í vinnslu vegna kórónuveirunnar:

*Lögð er áhersla á að allt sé til reiðu þegar að því kemur að sinna þarf sýktum einstaklingum.

*Sérstök viðbragðsstjórn hefur það hlutverk að stýra og samhæfa aðgerðir sjúkrahússins vegna COVID-19.

*Samráðs- og upplýsingafundir vaktaðir.

*Reglulegt samráð við umdæmislækni sóttvarna og HSN.

*Legudeildir sjúkrahússins eru lokaðar fyrir gestum allan sólarhringinn.

*Sjúklingar sem eiga bókaða tíma á dag- og göngudeildir eru beðnir að mæta án fylgdarmanns ef kostur er.

*Lögð er áhersla að vernda sérstaklega viðkvæma sjúklinga á dag- og göngudeildum með ákveðnum umgengisreglum um biðstofur og verklagi við innkallanir.

*Verið er að skoða hvort dagdeildasjúklingar geti um tíma fengið meðferð sem er fjarstýrt.

*Mikil áhersla á sýkingavarnir m.a. nýtt myndband um það hvernig farið er í hlífðarfatnað.

*Greining og sóttvarnaraðgerðir einstakra eininga er í sérstakri yfirferð.

*Upplýsingagjöf til starfsfólks um sérstaka síðu á innri vef m.a. með tengingar á aðrar upplýsingasíður heilbrigðisyfirvalda og almannavarna.

*Starfsemi er hagað með þeim hætti að draga úr hættu á að sjúklingar og starfsmenn smitist:

*Birgðir sem lúta að sóttvörnum og meðferð sýktra þ.m.t. lyf yfirfarnar og bætt í þar sem við á.

*Öllum námsferðum erlendis sem og stærri fundum starfsmanna hefur verið frestað.

*Öllum endurlífgunarnámskeiðum og hermikennslu verður frestað næstu 4 vikurnar.

*Byrjað er að kortleggja hvaða starfsmenn hafa fjartengingar og gætu unnið í fjarvinnu.

*Búið er að halda eina æfingu í móttöku og innlögn á sýktum einstaklingi. 

„Þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í á undanförnum árum varðandi öryggis- og gæðamál vegna gæðavottana er núna að skila sér í því að sjúkrahúsið er betur í stakk búið en það væri ella til að takast á við þessa áskorun. Ég vil hvetja alla til að kynna sér reglur um viðbragð á sinni starfseiningu og hafa í huga að í ástandi sem þessu þá erum við öll hvert og eitt almannavarnir. Með samstilltu átaki þá komumst við í gegnum þau verkefni sem framundan erum,“ skrifar Bjarni Jónasson.


Nýjast