„Viðtökurnar hafa verið frábærar“

Inga Vestmann og Vilborg Jóhannsdóttir hafa komið slaufunum upp víða um bæinn.
Inga Vestmann og Vilborg Jóhannsdóttir hafa komið slaufunum upp víða um bæinn.

„Þetta er ellefta árið sem Dömulegu dekurdagarnir eru haldnir á Akureyri og aldrei hefur gengið eins vel og nú í ár að selja slaufurnar. Viðbrögðin hafa verið frábær,“ segir Inga Vestmann en hún ásamt Vilborgu Jóhannsdóttur eru konurnar á bak við Dömurlega dekurdaga í tengslum við Bleikan október.

Í þessum mánuði prýða stórar bleikar slaufur ljósastaura víða um bæinn. Efnið í slaufurnar er sérstaklega flutt inn til landsins og handbinda þær Inga og Vilborg slaufarnar sjálfar. Markmiðið með slaufunum er tvíþætt; að lífga upp á bæinn og að minna konur á að fara í krabbameinsskoðun. Þess utan er tilgangur Dömulegra dekurdaga að glæða bæinn lífi, fá vinkonur, systur, mæðgur, dætur og vinnufélaga til að koma í bæinn og njóta saman.   Fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar geta keypt slaufur á sinn staur og kosta slaufurnar 5000 kr. Þá hafa mörg húsfélög í bænum tekið sig saman og keypt slaufur í íbúðargötur. Allur ágóðinn rennur óskiptur til Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis.

 Slaufurnar uppseldar

Inga segir að slaufurnar séu uppseldar, „en að sjálfsögðu er hægt að taka slaufu í fóstur og styrkja þannig málefnið,“ segir hún. „Einnig eru fallegu handþrykktu klútarnir enn til sölu fyrir sama málefni og kostar hver klútur 3000 kr. og rennur ágóður óskiptur til Krabbameinsfélagins,“ segir Inga en klútarnir fást í Versluninni Centro og í Pedromyndum. 

Styrkurinn verður síðan afhendur Krabbameinsfélaginu á lokakvöldi Bleika mánaðarins á Icelandair hótel í lok mánaðarins.

 


Nýjast