Vertu sjàlffræðingur!

Sólveig Helgadóttir ACC Markþjálfi og Áshildur Hlín Valtýsdóttir ACC Markþjálfi.
Sólveig Helgadóttir ACC Markþjálfi og Áshildur Hlín Valtýsdóttir ACC Markþjálfi.

Að þekkja og treysta á sjálfan sig er einn lykill að vellíðan og velgengni í lífinu. Ein leið til að vinna með sjálfsþekkingu og sjálfstraust er í gegnum vinnu með styrkleika. Öll búum við yfir fjölmörgum styrkleikum sem við höfum hinsvegar ekki alltaf rætt upphátt eða áttað okkur á að við búum yfir.

Við, Áshildur og Sólveig, erum ACC markþjálfar sem eiga það sameiginlegt að hafa mikinn áhuga á sjálfsvinnu með ungu fólki, sér í lagi með styrkleikaskoðun. Við höfum báðar umtalsverða reynslu af markþjálfun með þessum hóp og höfum nú gefið út ný styrkleikaspil til að nýta í einstaklingsmarkþjálfun, hópavinnu og í raun hvers kyns vinnu með styrkleika. Þemað er ungt fólk og styrkleikar. Við viljum sjá líflega og jákvæða umræðu um styrkleika á meðal ungs fólks.

Okkar draumur er að ungt fólk í dag vaxi úr grasi með sterka og meðvitaða sjálfsþekkingu og geti átt eðlilegt samtal um eigið ágæti án þess að virka sjálfhverft í hugsun. Við viljum búa í samfélagi þar sem styrkleikar eru ræddir og meðteknir. Vinna með spilin eykur sjálfsvitund, sem skilar sér í meira sjálfstrausti og betri líðan þegar upp er staðið. Sett hefur verið upp Facebook síðu utan um verkefnið, en safnað er fyrir útgáfukostnaði á Karolina Fund.

Slóðirnar eru www.facebook.com/styrkleikaspil og www.karolinafund.com/project/view/2693.

-Áshildur Hlín Valtýsdóttir ACC Markþjálfi og Sólveig Helgadóttir ACC Markþjálfi


Nýjast