Veit hvað hann er að tala um þegar þegar kemur að mat

Pétur Helgi Pétursson sér um Matarkistu vikunnar
Pétur Helgi Pétursson sér um Matarkistu vikunnar

Pétur Helgi Pétursson er matgæðingur vikunnar í Matarkistu Skarps.

Pétur er allt í öllu á Dvalarheimilinu Hvammi, hann hefur verið öflugur í fjáröflun og félagsstarfi fyrir Völsung í áratugi og er eftirsóttur kokkur og grillmeistari í allskyns veislum og samkomum. Hann var líka kokkur á Björgu Jónsdóttur í a.m.k. 15 ár og veit því nákvæmlega hvað hann er að tala um þegar umræðan snýst um matargerð.

Hakkabuff með spældu eggi

hakkabuffin komin á pönnuna

Byrjum á því að setja ca 800 - 1000 gr af nautgripahakki í skál (ekki undir 12 % feitu) Söxum niður 1-2 lauka (eftir smekk) og setjum saman við, 3 egg og 2 bolla hafragrjón, 2 bolla af rifnum osti og kryddum svo vel með salti og pipar. Nú er gott að steikja 2 lauka og geyma þar til síðar í ferlinu því laukur er jú afar hollur og góður Þetta er svo hrært saman í hrærivélinni en passa sig að hræra ekki mjög mikið, því þá verða buffin of þétt, síðan eru búin til buff úr deiginu og þau steikt á pönnu og krydduð svolítið meira og þar getið þið leikið ykkur svolítið með allskonar krydd, ég nota t.d Season all og klikkar það aldrei.

Buffunum svo raðað í eldfast mót. Og steikta lauknum dreift yfir. Síðan er þetta sett í ofnin við 200 gráður í 40 mín. Þegar búið er að steikja buffin setjum við 2 stóra teninga af kjötkrafti á pönnuna og vatn og sjóðum niður til að fá svolítinn kraft (ekki Didda) í sósuna, þetta er svo sigtað í pott, svo er hægt að nota sósujafnara og alls ekki gleyma rjómanum því það getur ekki orðið góð sósa ef enginn er rjóminn.

Með þessum yndælisrétti er borin fram rabarbarasulta, kartöflustappa, grænar baunir og svo að sjálfsögðu spælt egg, og mikið af þeim. Svo er rosalega gott að fá sér góðan bjór með þessari dýrð.

Ef svo illa vill til að þú lesandi góður er vegan, þá geturðu í staðinn fyrir kjötið sett bara hundasúrur saman við en það verður aldrei gott, ég get fullyrt það.

Slyddu salatið

Saxa gulrófu, hvítkál, gulrætur og epli örlítið af sykri og að sjálfsögðu majónes. Þetta heimsfræga slyddusalat er ómissandi með öllum alvöru mat.

Verði ykkur að góðu.


Nýjast