Veður hefur áhrif á aðsókn

Guðbergur Egill Eyjólfsson og Birna Kristín Friðriksdóttir reka húsdýragarðinn Daladýrð á bænum Brún…
Guðbergur Egill Eyjólfsson og Birna Kristín Friðriksdóttir reka húsdýragarðinn Daladýrð á bænum Brúnagerði í Fnjóskadal. Þau settu upp fræðslusýningu um íslensku sauðkindina fyrr í sumar. Mynd/Margrét Þóra.

„Við höfðum sett markið á að fá til okkar um 15 þúsund gesti í sumar en veðrið hefur sett strik í þann reikning,“ segir Guðbergur Egill Eyjólfsson sem rekur ásamt eiginkonu sinni, Birnu Kristínu Friðriksdóttur húsdýragarðinn Daladýrð á bænum Brúnagerði í Fnjóskadal, skammt innan við Vaglaskóg. Þetta er þriðja sumarið sem þau reka húsdýragarð á bænum, það fyrst komu 5000 gestir í heimsókn og í fyrra voru þeir 10 þúsund talsins. Ríflega 15 mínútur tekur að aka frá Akureyri í Daladýrð eftir að Vaðlaheiðagöng voru tekin í notkun.

Guðbergur segir að kuldi og bleyta norðan heiða setji mark sitt á reksturinn þetta sumarið, en enn má halda í þá von að stytti upp og þeir Akureyringar sem eltu sólina suður á land eigi eftir að skila sér síðsumar og snemma hausts.  Metaðsókn var í Daladýrð um síðustu páska en þá lék veðrið við íbúa á norðanverðu landinu. „Fólk er eðlilega meira á ferðinni í góðu veðri, það hvernig viðrar hefur mikið að segja um hver aðsókn er,“ segir hann.

Starfsemin fer m.a. fram í minkahúsi sem fyrir var á jörðinni, þar er svæði fyrir börn til að stökkva í hey, veitingasalur með sætum og fyrr í sumar var sett þar upp fræðslusýning um íslensku sauðkindina. Hún er hönnuð þannig að börn og fullorðnir geti farið saman í gegn um sýninguna og  höfðað er til þeirra sem ekki eru kunnugir fjárbúskap og sveitalífi.

Klifurgrindin er vinsæl hjá geitunum

Utandyra er leiksvæði fyrir börn og hægt er að ganga í góðan hring út frá minkahúsinu og koma við hjá húsdýrunum í leiðinni.  Á bænum eru hestar, kýr og kindur, geitur og svín og einnig er þar að finna heimilishund, ketti, hænur, endur, dúfur og  kanínur svo eitthvað sé nefnt. Klifurgreind fyrir geiturnar var sett upp í vor og kunna þær vel að meta að hafa þanan möguleika að klifra upp á efsta pall og njóta útsýnis.

Tveir refir eru í húsdýragarðinum  og verður starfsemin í vetur byggð að hluta til í kringum þá.


Nýjast