Varð sjö sinnum þunguð og fæddi fjögur andvana börn

Stína með börnum sínum, Rósu Björgu Ólafsdóttur og Anton Gunnari Ólafssyni, á 70 ára afmæli sínu.
Stína með börnum sínum, Rósu Björgu Ólafsdóttur og Anton Gunnari Ólafssyni, á 70 ára afmæli sínu.

Þessi grein birtist upphaflega í Jólablaði Vikudags sem var unnið af nemendum í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri. Rætt er við Kristínu Antonsdóttur sem hefur sjö sinnum orðið þunguð og fjórum sinnum fætt andvana börn.

,,Þetta er rosaleg lífsreynsla og ég vil engum þetta” sagði Kristín Antonsdóttir, eða Stína eins og hún er alltaf kölluð, þar sem hún sat við eldhúsborðið og rifjaði upp erfiðar og sársaukafullar minningar. Stína og þáverandi eiginmaður hennar misstu fóstur í fyrsta sinn árið 1970 þegar Stína var 22 ára gömul. Þremur árum seinna varð hún aftur þunguð en á áttunda mánuðinum misstu þau barnið. ,,Ég fór upp á sjúkrahús því það byrjaði að blæða og þar missti ég legvatnið. Svo var ég send í röntgenmyndatöku því það var ekki til sónar á þessum tíma. Í myndatökunni sást að ekki var allt með felldu, ég fæddi barnið og það dó”. Árið 1975 misstu þau sitt annað barn og þremur árum síðar gekk Stína með utanlegsfóstur. Á þeim tíma skildi hún við fyrsta eiginmann sinn. Síðar tók Stína saman við Ólaf Gunnarsson og sömu erfiðleikar biðu þeirra. Hjónin misstu tvö börn árin 1981 og 1985 og fóstur árið 1983. ,,Eftir seinni barnmissinn hættum við að reyna, þetta var orðið of erfitt”.

Upplifunin skelfileg

,,Ímyndaðu þér bara að ganga með fullt af börnum og geta ekki fætt þau”. Á þeim tíma sem Stína gekk þennan hryggilega veg fengu foreldrar andvana barna ekki að kveðja því þau voru samstundis tekin burt. Sjálf var Stína lærður sjúkraliði og vön að sjá andvana börn. Hún upplifði þetta sem verið væri að ræna af henni dýrmætri kveðjustund. Í dag er tekinn hárlokkur, fótspor, mynd og foreldrar geta haft barnið hjá sér og kvatt það. ,,En þetta var ekki til þá og ég er auðvitað ekki sú eina sem upplifði þetta.”

Læknar höfðu engar útskýringar á því hvers vegna Stína gat ekki eignast börn en í dag þykir víst að hún hafi verið með það sem nefnist legslímuflakk eða endómetríósa. ,,Þetta orð var ekki til þá. Ef ég hefði fengið einhverja skýringu hefði ég ekki reynt í öll þessi skipti. Mér gekk mjög vel að verða ólétt en það er bara ekki nóg. Það var verst að vita ekki hvað var að. Af hverju börnin mín lifðu ekki í móðurkviði”. 

Ættleiðing eina leiðin

Stína og Ólafur ákváðu að sækja um ættleiðingu og giftu sig í kjölfarið en krafa var gerð til þess. ,,Þetta var bara eina lausnin til að geta eignast barn. Það skipti mig engu máli hvaðan barnið kæmi, bara að ég fengi barn”. Stínu þótti biðin verst og sagði að meðgangan, eins og hún orðaði það, hafi verið ansi löng. Hjónin áttu von á strák frá Sri Lanka árið 1986 en í miðju ættleiðingaferlinu tók íslenska dómsmálaráðuneytið ákvörðun um að stöðva ættleiðingar frá landinu.

Eftir mikil erfiði og ótrúlega þrautseigju, 18 árum eftir að Stína varð þunguð í fyrsta sinn, var þeim loks tilkynnt að þau ættu von á stelpu frá Kalkútta á Indlandi sem þau sóttu í júlí 1988. ,,Biðin var hræðileg, frá því að við vissum um hana og þangað til við fengum að sækja hana. Þá var ég orðin fertug”.

Litla stelpan okkar veik

Framundan beið hjónanna langt ferðlag en með þeim í för var systir Óla, sem var túlkur, og önnur hjón sem áttu von á barni. Fljótlega eftir að þau komu á barnaheimilið í Kalkútta var þeim tilkynnt að litla stúlkan þeirra væri með lungnabólgu og hafði verið veik í rúma sjö mánuði. Hún var þá 9 mánaða gömul. Læknirinn sagði þeim að á meðan hún væri með lungnabólgu fengi hún ekki að fara til Íslands. Stína og Óli fengu að vera með henni í klukkutíma fyrsta daginn og tilfinningin að halda á sínu eigin barni var ólýsanleg. Stína sagðist ekki muna hvað hafi þotið í gegnum höfuð hennar. Það eina sem hún man var að hafa grátið. ,,Ætli maður hafi ekki verið að upplifa það þegar maður fékk ekki að halda á börnunum sínum. Ég get svarið það ég man það ekki. En til Íslands ætlaði ég með hana. Það gat enginn sagt mér annað”. 

Tilfinningaþrungin heimleið

Á leiðinni út á flugvöll spurði starfsmaður barnaheimilisins hvers vegna Stína væri að gráta, hvort hún sæi eftir öllu saman og vildi skila barninu. En mágkona hennar sagði konunni frá raunum Stínu; hún væri búin að missa svo oft börn og þegar henni var tilkynnt að barnið væri svo veikt að það kæmist mögulega ekki til Íslands gerðu ótti og hræðsla vart við sig að nýju. Stínu fannst þó erfiðast að bíða með stúlkuna sína á flugvellinum í Indlandi ,,Ég var þarna með hana, hvít á litinn, og það voru allir að kveðja hana. Allir að segja bless við hana því auðvitað sáu allir að við vorum að sækja þessi börn, fólk sem þekkti hvorki okkur né börnin”. Stína fór yfir ólgusjó erfiðra tilfinninga en hamingjuna bar hún samt sem áður í brjósti. Hún var á leið heim með stelpuna sína, Rósu Björg.

Haldið að nýju til Kalkútta

Fljótlega eftir heimkomuna sóttu Stína og Óli um að komast aftur á skrá hjá ættleiðingafélaginu en voru undirbúin því að fá neitun vegna aldurs. Stína sagðist hafa þráð strák þar sem hún hafði misst þrjá stráka og eina stelpu. Hún sagði frá kvöldinu þegar símtalið frá ættleiðingafélaginu barst. Hjónin voru á leið á húsfund þegar Stína hætti við að fara, sagðist ekki vera lasin en að henni liði einkennilega. Óli hafði verið á fundinum í tíu mínútur þegar síminn hringdi og Stínu sagt að hún ætti von á litlum strák. ,,Konan hjá ættleiðingafélaginu sagði mér að hann væri svo ægilega sætur og að ef ég vildi hann ekki þá tæki hún hann. Ég sagðist auðvitað bara vilja fá hann”. Ættleiðingaferlið er mjög dýrt og því var ákveðið að Stína og Rósa yrðu eftir heima þegar hann var sóttur. ,,Óli sagði mér svo frá því að hann þorði ekki að kalla hann nafninu sínu, sem hann var þá þegar búinn að fá, Anton Gunnar. Hann kallaði hann því bara Aninda. Þau fá nafn á barnaheimilinu en eru ekki skírð. Rósa hét Hema”.

Ættleiðing mun erfiðari en meðganga

Til þess að geta ættleitt þurftu Stína og Óli að sýna fram á hreint sakavottorð, fara í gegnum sálfræðimat og mjög nákvæma læknisskoðun. Þau þurftu einnig að sýna fram á að þau væru ófær um að eignast börn. Félagsráðgjafi var sendur á heimili þeirra og fjárhagsstaða þeirra metin. Stína sagði þann feril hafa verið mun lengri og erfiðari en venjuleg meðganga: ,,Þá verður þú bara ólétt og það skiptir engu máli hvernig þú eða heimili þitt er”. Börnin þurftu einnig að gangast undir reglulega læknisskoðun og senda þurfti bréf, í tvö til þrjú ár, um líðan þeirra ásamt myndum. ,,Ég veit ekki hvernig þeim líkaði myndin sem ég sendi af Antoni þar sem honum var bara hent út í snjóskafl”.

Þrátt fyrir erfitt ferli ber Stína eftirsjá í brjósti gagnvart því að hafa ekki byrjað fyrr að ættleiða börn. Hún sagðist glöð hafa viljað bjarga einu barni í viðbót en aldurinn kom í veg fyrir það. ,,Ég hefði frekar kosið það að geta ekki orðið ólétt því þá hefði ég ættleitt strax. Ég hefði ekki lagt þetta á mig, þetta er meira en að segja það.”

Stína hvetur fólk sem reynt hefur við glasafrjóvganir án árangurs að skoða frekar möguleikann á því að ættleiða. ,,Ef þið getið ekki átt barn, bjargið þið þá að minnsta kosti einu og sjálfum ykkur í leiðinni."

 


Nýjast