Vandræðaskáld á Græna hattinum í kvöld

Vandræðaskáldin skemmta á Græna hattinum í kvöld.
Vandræðaskáldin skemmta á Græna hattinum í kvöld.

Vandræðaskáldin Sesselía Ólafsdóttir og Vilhjálmur B. Bragason hefja tónleikavikuna á Græna hattinum í kvöld, fimmtudagskvöld sem er hluti af tónleikaför dúettsins. Tónleikarnir bera yfirskriftina „Vandræðaskáld vega fólk“ og gera Vandræðaskáldin einmitt það; halda út á veginn og vega fólk og meta, en vega það þó ekki nema nauðsyn beri til.

„Vopnuð sínum kolsvarta húmor og hárbeittri þjóðfélagsádeilu ætla þau að fjalla um lífið, ástina og dauðann á sinn einstaka hátt. Á ferðalaginu er ekkert heilagt og Vandræðaskáldin hika ekki við að segja óborganlegar og óviðeigandi sögur, grípa til hyldjúprar heimspeki og að vitna í bílaleiguna Hertz,“ segir í tilkynningu. Skemmtunin hefst kl. 21.00.

Sveitin Dúndurfréttir er lögð aftur af stað eftir gott hlé og verða á Græna hattinum á föstudagskvöldið 13.október og spila brot af því besta úr klassíska rokkinu. „Allt gamla góða rokkið frá Led Zeppelin, Pink Floyd, Uriah Heep og Deep Purple verður á sínum stað en einnig lög víða að úr þessum klassíska rokkgeira. Mjög fjölbreytt blanda af allskonar rokki, mjúkt og hart þannig að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Kvöldstund með Dúndurfréttum er ávísun á hlýjar minningar í minningabankann. Ást og rokk í einum pakka.“ Tónleikarnir hefjast kl. 22.00.

Á laugardagskvöldið 14. október heldur Hildur Vala ásamt hljómsveit sína fyrstu tónleika á Græna hattinum. Hún vinnur nú að sinni þriðju sólóplötu og því ekki ólíklegt að nýtt efni verði kynnt tónleikagestum, auk þess sem lög af fyrri plötum söngkonunnar fá að óma.
Með Hildi Völu leika Birgir Baldursson á trommur, Andri Ólafsson á bassa, Stefán Már Magnússon á gítar og Jón Ólafsson á hljómborð. Tónleikarnir hefjast kl. 22.00


Nýjast