Valþór Ingi íþróttamaður KA 2016

Valþór Ingi hefur sýnt að hann hefur til að bera þann metnað,  sem þarf til að ná árangri í íþróttin…
Valþór Ingi hefur sýnt að hann hefur til að bera þann metnað, sem þarf til að ná árangri í íþróttinni. Mynd: Þórir Tryggva/KA.is

Í dag fór fram 89 ára afmæli KA og var gríðarlega fjölmennt í KA-heimilinu. Undir lok hátíðardagskránnar var kjöri íþróttamanns KA lýst. Valþór Ingi Karlsson, tilnefndur af blakdeild, var hlutskarpastur og er því íþróttamaður KA fyrir árið 2016.

Valþór Ingi Karlsson er fæddur 21. maí 1997.  Hann hefur æft blak hjá KA frá 6 ára aldri og á bæði Íslands- og Bikarmeistaratitla með yngri flokkum félagsins. 

Valþór Ingi tók fyrst þátt í leik með meistaraflokki þegar hann var 13 ára en hefur verið einn af lykilmönnum þess liðs undanfarin ár.  Hann er fjölhæfur leikmaður með mikinn leikskilning og mikla vinnusemi á vellinum.  Valþór Ingi varð bikarmeistari með liðinu s.l. vor og í 2. sæti Íslandsmótsins eftir harða baráttu í úrslitakeppninni.  Þá var hann valinn í úrvalsllið Mizunodeildarinnar  s.l. vor sem besti frelsingi Íslandsmótsins. 

Valþór Ingi hefur lengi spilað með unglingalandsliðnum í blaki og lauk þeim ferli nú í haust er hann fór með U-19 ára landsliðnu á NEVZA mót til Englands.  Í sumar spilaði hann sína fyrstu A-landsliðsleiki þegar liðið tók þátt í undankeppni heimsmeistaramótsins. Þá hefur hann verið valinn í A-landsliðshóp sem tekur þátt í Novotel cup í Luxemborg um áramótin.  Þrjú önnur verkefni liggja fyrir hjá A- landsliðinu n.k. vor.  Það er því að miklu að stefna. 

Valþór Ingi hefur sýnt að hann hefur til að bera þann metnað,  sem þarf til að ná árangri í íþróttinni og er ástundun hans til fyrirmyndar í alla staði. Þetta kemur fram á heimasíðu KA.

Böggubikarinn í þriðja sinn

Böggubikarinn 2016

Þá var í dag einnig afhentur Böggubikarinn í þriðja sinn. Anna Rakel Pétursdóttir, knattspyrnudeild og Dagur Gautason, handknattleiksdeild, hlutu verðlaunin. 

Anna Rakel Pétursdóttir

Anna Rakel er fædd 1998 og varð því 18 ára á árinu. Hún er fyrirmyndar-KA maður innan vallar sem utan, afburða hæfileikarík í knattspyrnu , jákvæð, drífandi  og fyrirmynd stúlkna sem drengja í KA. Anna Rakel hefur æft af kappi upp alla flokka KA, jafnt með stúlkum sem drengjum auk þess að þjálfa hjá félaginu. Anna Rakel var burðarás í liði Þór/KA/Hamrarnir í 2. flokki sem varð íslandsmeistari á árinu auk þess að spila lykilhlutverk með liði Þór/KA í Pepsí deild í sumar. Anna Rakel á að baki 50 leiki með meistaraflokki í deild og bikar og hefur í þeim skorað 7 mörk. Hún hefur jafnframt leikið 14 leiki með U17 landsliðinu og skorað í þeim 2 mörk. Hún hefur spilað 5 leiki með U19 landsliðinu og skorað í þeim 3 mörk. Anna Rakel var fyrir skömmu valin til æfinga með A-landsliði Íslendinga, sem undirbýr sig af kappi fyrir úrslitakeppni EM 2017.

Dagur Gautason

Dagur Gautason er 16 ára leikmaður 3.flokks KA og 2.flokks Akureyri.

Dagur hefur verið í yngri landslið Íslands síðustu ár.

Dagur er mjög metnaðarfullur leikmaður sem leggur sig alltaf 100% fram. Hann er ótrúlega flott fyrirmynd fyrir yngri iðkendur og er alltaf mættur fyrstur á æfingar og fer helst síðastur heim.

Hann leggur mjög mikið á sig og er alltaf tilbúinn að æfa aukalega.

Þjálfarar hans í fyrra Andri Snær og Jón Heiðar Sigurðsson lýsa honum sem fullkomnum leikmanni til að þjálfa. Hann hlustar á allar leiðsagnnir og er alltaf á fullu á öllum æfingum.

Dagur er gríðarlega mikill KA-maður og hikar ekki við að vinna sjálfboðavinnu fyrir klúbbinn. Þetta kemur fram á heimasíðu KA.

 


Nýjast