Vaktþjónusta lækna færist frá SAk yfir á heilsugæsluna

Heilsugæslustöðin á Akureyri.
Heilsugæslustöðin á Akureyri.

Heilsugæslustöðin á Akureyri hefur rekið vaktþjónustu heimilislækna á bráðamóttöku Sjúkrahúss Akureyrar (SAk) undanfarin ár, en þann 24. september nk. verður fyrirkomulagi þjónustunnar breytt. Þá mun opin vaktþjónusta heimilislækna færast frá SAk yfir á heilsugæsluna sem er í Hafnarstræti 99. Í tilkynningu segir að breytingarnar séu gerðar í þeim tilgangi að skilja vaktþjónustu heimilislækna frá bráðamóttöku SAk,
bæði til að auka öryggi skjólstæðinga sem og að efla almenna vaktþjónustu heimilislækna
heilsugæslunnar við bæjarbúa. Þá munu tímasetningar vaktþjónustunnar breytast, en í nýju fyrirkomulagi verður hún opin frá 14-18 alla virka daga og frá 10-14 um helgar.

Fyrst og fremst til að bæta öryggi

„Þessi breyting er fyrst og fremst framkvæmd til að bæta öryggi og aðgengi fólks að þjónustu
heilsugæslunnar,”, segir Jón Torfi Halldórsson, yfirlæknir heilsugæslunnar á Akureyri. „Breytingarnar voru unnar í þverfaglegu samstarfi eftir þarfagreiningu. Það er okkar von að með nýju fyrirkomulagi muni biðtími eftir þjónustu styttast verulega, þar sem við höfum fjölgað læknum og hjúkrunarfræðingum sem í sameiningu munu sinna þjónustunni.”
Vaktþjónusta heimilislækna við heilsugæsluna er ætluð sjúklingum sem þarfnast læknishjálpar samdægurs vegna skyndiveikinda eða sambærilegra atvika.

 


Nýjast