Útskrift á Grænuvöllum

Útskriftarhópurinn
Útskriftarhópurinn

Þessi glæsilegi hópur barna fædd árið 2011 útskrifaðist af leikskólanum Grænuvöllum á Húsavík síðastliðinn þriðjudag. Það var að sjálfsögðu haldið upp á daginn á viðeigandi hátt. Foreldrum var boðið á athöfn í sal leikskólans þar sem foreldrar nýttu tækifærið og afhentu leikskólanum peningagjöf í tilefni dagsins; en það er hefð fyrir því að foreldrar útskriftabarna þakki leikskólanum fyrir samveruna með gjöfum.

Börnin voru síðan kölluð upp eitt af öðru og fengu afhent staðfestingaskjal um útskriftina ásamt fallegri rós. Börnin voru öll hin prúðustu enda hafði athöfnin verið æfð gaumgæfilega fyrr um daginn. Börnin sungu svo nokkur lög áður en boðið var upp á kaffi, djús og dýrindis köku. Að því loknu leiddu börnin foreldra sína upp á deildina sína og sýndu listaverk sem þau höfðu unnið.

Í dag og í gær hófu börnin undirbúning fyrir grunnskólagöngu sína með ferðum í Borgarhólsskóla þar sem þau fá að kynnast skólanum. „Þetta var frábært og rosalega gott nesti,“ sagði einn tilvonandi grunnskólanemandinn í lok fyrri skóladagsins.


Nýjast