Um píkur og hnéverki

„Vertu ekkert að hafa fyrir mér.“ „Þarf þetta ekki einhver annar?“ „Nei ég hef það ágætt.“

Allt eru þetta setningar sem ég hef heyrt fólk sem komið er á efri ár tauta fyrir munni sér. Það virðist nefnilega vera sem sú kynslóð fólks sem í dag telst til eldri borgara hafi alist upp við það að mega aldrei kveinka sér.

Hvers vegna geri ég það að umtals efni? Jú, ég þekki nefnilega konu sem er komin fast á áttræðisaldurinn. Hún hefur alla tíð lagt hart að sér og borgað í samneysluna. Síðustu ár hefur hún verið slæm í öðru hnénu og hafa verkirnir verið að ágerast. Þeir eru nú orðnir það slæmir að hún er hætt að geta stundað útivist eins og hún gerði og veigrar sér við því að fara í heimsóknir til fólks. Hún hefst að mestu við heima og treystir á heimsóknir afkomenda fyrir félagsskap. Hún hefur verið undir eftirliti lækna og var að vonast til að komast í aðgerð til að láta gera við hnéð á sér. Aðgerð sem er tiltölulega einföld og myndi tryggja þessari konu sjálfsögð lífsgæði sem hún býr ekki við í dag.

Nýverið heimsótti hún lækni með von í brjósti um að fá jákvæðar fréttir um fyrirhugaða aðgerð. Því var nú aldeilis ekki að heilsa. Læknirinn taldi ekki réttlætanlegt að senda konuna í aðgerð því hún getur ennþá sofið. Svefn er semsagt einu lífsgæðin sem eldri borgarar á Íslandi þurfa.

Því miður er saga þessarar konu ekkert einsdæmi hér á Íslandi allsnægtanna. Maður heyrir þessar hryllingssögur allt í kringum sig og maður skilur hreinlega ekki þetta sinnuleysi gagnvart þeim sem hafa borgað sitt, oft og tíðum margfalt.

Hvað eru stjórnmálamenn sem móta stefnuna að hugsa? Átta þeir sig ekki á að þeir munu líka eldast?

Jú, þeir skilja ósköp vel hvernig í pottinn er búið. Það er líklega þess vegna sem stjórnmálamenn sumir hverjir ásamt elítu himpigimpum fylla prívat hirslur sínar af fjársjóðum og grafa þá síðan á Tortóla. Manni liggur við að segja eins og Styrmir Gunnarsson: „Þetta er ógeðslegt þjóðfélag.“

Á sama tíma og eldri borgarar bera áþján sína í hljóði fyllast dagblaðasíður og netmiðlar af umfjöllunum um píkubarmaaðgerðir. Það er vitnað í hvern lýtalækninn á fætur öðrum sem heldur því fram að aðgerðir til að minka síða píkubarma séu hið mesta þjóðþrifamál því barmarnir síðu geta jú valdið þvílíkum óþægindum. Jú, máské eru síðir píkubarmar óþægilegir í brók, þó hefur undirritaður hingað til getað girt tittling sinn án teljandi óþæginda þrátt fyrir ágætis sídd.

Þessir svokölluðu læknar (hvað eru þeir að lækna?) framkvæma slíkar aðgerðir blygðunarlaust á ólögráða stúlkubörnum (þær geta líklega ekki sofið fyrir börmunum). Síðan fara þeir afsíðis og telja aurana í barmafullum buddum sínum.

Á meðan húkir gamla fólkið okkar í myrkrinu og nuddar á sér hné.

Fleiri greinar eftir Egil:

Börnin í Aleppo eru börn okkar allra

Hamingja er velmegun

Kynferðislegu brjóstin

Áhyggjufullur og viðutan pabbi

Lýðræði er líka fyrir börn

„Afhverju varst þú að gista hjá löggunni?“

Kaffið vökvar en mjólk er ógeðsleg

Ágreiningur á heimilinu


Nýjast