Um 2000 gestir á Fundi fólksins í Hofi

Fundur fólksins var vel sóttur og þótti takast vel.
Fundur fólksins var vel sóttur og þótti takast vel.

Lýðræðishátíðin Fundur fólksins var haldin í Hofi á Akureyri dagana 8. og 9. september. Hátt í 2000 gestir sóttu hana heim. Í tilkynningu segir að mikil gleði og ánægja hafi ríkt meðal hátíðargesta sem voru sammála um að hún hefði aldrei lukkast betur.

„Þeir voru einnig á því að hátíð sem þessi ætti mun meira erindi utan höfuðborgarsvæðisins líkt og systurhátíðir hennar á Norðurlöndunum. Ráðherrar og þingmenn komu gagngert til Akureyrar til að eiga beint samtal við þátttakendur og gesti enda yfir 70 viðburðir á dagskrá þessa daga á vegum 50 ólíkra félagasamtaka víðsvegar af landinu. Það var úr mörgu að velja allt frá örfyrirlestrum, spjalli manna á milli í sófunum í opnu rými, málstofum, umræðutorgi, diskósúpu til tónlistaratriða og uppistands. Gestir úti í sal tóku virkan þátt og fjörugar umræður sköpuðust oft á tíðum sem færðust jafnvel yfir á kaffihús bæjarins þegar leið á kvöldið,“ segir í tilkynningu.

Þá er haft eftir Þuríði Helgu Kristjánsdóttur verkefnastjóra lýðræðishátíðinnar mikil ánægja sé með hvernig til tókst.

„Við erum að halda hátíðina í fyrsta skipti utan höfuðborgarinnar og erum sérstaklega ánægð með hversu margir gerðu sér ferð norður til að taka þátt. Við náðum að sá fjölda fræja um hvernig hægt er að nýta þennan vettvang og nú þurfum við að vökva spírurnar til að hugmyndirnar vaxi og dafni, segir Þuríður Helga.

 


Nýjast