Íbúar uggandi vegna fyrirhugaðrar steypustöðvar

Eins og sjá má á myndinni mun væntanleg bygging á steypustöð og steypueiningarverksmiðju á Rangárvöl…
Eins og sjá má á myndinni mun væntanleg bygging á steypustöð og steypueiningarverksmiðju á Rangárvöllum vera nálægt Giljaverfi.

Íbúar í Giljahverfi á Akureyri eru ósáttir við væntanlega byggingu á steypustöð og steypueiningarverksmiðju á Rangárvöllum sem yrði í um 100 m fjarlægð frá íbúahverfi. Hverfisnefnd Giljahverfis hefur fundað um málið og sent inn umsókn til bæjaryfirvalda þar sem væntanlegri byggingu steypustöðvar og einingarverksmiðju er harðlega mótmælt.

Finnur Víkingsson, formaður hverfisnefndarinnar, segir íbúa uggandi yfir stöðunni. „Við héldum öflugan íbúafund rétt fyrir kosningar sl. vor í Giljaskóla þar sem mættu yfir 100 manns. Afstaða íbúa í hverfinu er alveg skýr; við kærum okkur ekki um mengandi verksmiðjustarfsemi svona nálægt íbúahverfi. En ég tek það skýrt fram að við erum ekki í stríði við lóðarhafa heldur erum við að gagnrýna Akureyrarbæ,“ segir Finnur. Hann bendir á að í deiliskipulagi fyrir lóðirnar frá árinu 2007 sé ekki gert ráð fyrir annarri starfsemi en athafnasvæði Landsvirkjunnar, Rarik og Norðurorku. Í umsókn lóðarhafa er óskað eftir stækkun á lóð og þreföldun á byggingarmagni fyrir verksmiðjuna og steypistöðina.

Segir þetta þvert á loforð bæjarfulltrúa

„Okkur finnst bæjaryfirvöld vera að svíkja það sem búið var að lofa fyrir þessu hverfi fyrir kosningarnar sl. vor, en þá sögðu oddvitar allra flokkanna að þarna yrði ekki leyfð mengandi starfsemi sem steypistöð og steypueiningarverksmiðja er og að finna starfseminni annan stað“, segir Finnur.

Hann bendir á að ef lóðarhafi fái leyfið í gegn sé kominn steypistöð, ekki minni en Möl og Sandur, í 100 m fjarlægð frá íbúahverfi. „Það sem er kannski alvarlegast við þetta er að deiliskipulagstillagan sem liggur fyrir hjá bænum hljóðar upp á að þarna megi vera mengandi iðnaður frá klukkan sjö á morgnana til 21 á kvöldin alla virka daga með 55 deselbila meðaltalshávaða við íbúahúsnæði í 100 m fjarlægð. Til að setja þetta í samhengi þá er þetta hámarksgildi á hávaða ef þú átt hús við Miklubraut í Reykjavík.“

Málið var tekið fyrir á síðasta fundi skipulagsráðs þar sem lagðar voru fram kynningar á umsögnum Landsnets, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, SS Byggis ehf. og hverfisnefndar Giljahverfis um tillögur að breytingu á deiliskipulagi iðnaðar- og athafnasvæðis á Rangárvöllum. Afgreiðslu frestað, þar sem umsagnir Norðurorku og Rarik liggja ekki fyrir.


Nýjast