Tvö af hættulegustu gatnamótum landsins eru á Akureyri

Gatnamót Glerárgötu/Borgarbrautar/Tryggvabrautar/Hörgárbrautar hafa löngum verið umdeild þar sem þau…
Gatnamót Glerárgötu/Borgarbrautar/Tryggvabrautar/Hörgárbrautar hafa löngum verið umdeild þar sem þau þykja hættuleg umferðinni. Mynd/Þröstur Ernir.

Verstu gatnamót landsins hafa síðustu ár öll verið á höfuðborgarsvæðinu en nú er svo komið að tvö gatnamót á Akureyri eru komin í hóp verstu gatnamóta þegar skoðuð eru slys með meiðslum.

Þetta kemur fram í skýrslu Samgöngustofu á umferðarslysum á Íslandi árið 2017.

Um er að ræða annars vegar gatnamót Glerárgötu/Tryggvabrautar/Hörgárbrautar/Borgarbrautar og annarsvegar Glerárgötu/Strandgötu. Fram kemur í skýrslunni að á árunum 2013-2017 urðu alls tuttugu umferðarslys með meiðslum á gatnamótunum tveimur. Þegar slys með meiðslum eru skoðuð sést að verst eru gatnamót Miklubrautar og Háaleitisbrautar með 17 slys á 5 árum og þar á eftir koma gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar sem og gatnamót Miklubrautar og Grensásvegar.

Akureyringar og Ísfirðingar í flestum slysum

Þá kemur einnig fram í skýrslunni að íbúar Norðurlands eystra lendi í flestum slysum m.v. íbúafjölda árið 2017 en á árunum 2013-2017 lentu íbúar Suðurnesja í flestum slysum m.v. íbúafjölda. Sá landshluti sem stendur sig best er Vesturland, hvort sem litið er til ársins 2017 eða síðustu fimm ára.

Þegar helstu þéttbýlisstaðir eru skoðaðir sést að árið 2017 lentu Ísfirðingar og Akureyringar í flestum slysum m.v. íbúafjölda. Árið 2017 létust 16 einstaklingar í 13 banaslysum hér á landi, níu karlmenn og sjö konur. Af þessum 16 sem létust voru sjö Íslendingar, fimm erlendir ferðamenn og fjórir erlendir ríkisborgarar búsettir á Íslandi. Er þetta í fyrsta sinn frá upphafi sem fleiri erlendir ríkisborgarar en Íslendingar látast í umferðarslysum á íslenskum vegum.


Nýjast