Tveggja ára fangelsi, að mestu skilorðsbundið, vegna kynferðisbrots gegn ungri stjúpdóttur

Karlmaður hefur í Héraðsdómi Norðurlands eystra verið dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni.   Brotin áttu sér stað á tímabilinu frá 2010 til 2014, þegar stúlkan var um eins árs og þar til hún var fjögurra ára gömul. Refsingin er að stórum hluta skilorðsbundinn, 21 mánuður af 24. Það þótti fær þar sem maðurinn kom sjálfviljugur til lögreglu og greindi frá brotum sínum og sýndi með því iðrun sína og vilja til að bæta fyrir þann skaða sem hann olli stúlkunni.

Grunur vaknaði í upphafi ársins 2014 um að ákærði hefði framið kynferðisbrot gegn stúlkunni. Málið var rannsakað en fellt niður að rannsókn lokinni þar sem sakargögn þóttu ekki nægileg til ákæru. Í maí árið 2017 leitaði ákærði til lögreglu að eigin frumkvæði og vildi skýra frá brotum sínum.

Við ákvörðun refsingar var litið til þess að um er að ræða mjög alvarleg brot gegn ungu barni sem ákærða var trúað fyrir og hafði fjölskyldutengsl við. Á hinn bóginn var við uppkvaðningu dómsins einnig litið til þess að ákærði hefur hreinan sakarferil og þess að hann iðrast mjög verknaðarins. Hann fór af sjálfsdáðum til lögreglu og skýrði hreinskilnis­lega frá brotum sínum, m.a. í því skyni að tryggt yrði að barnið fengi þá aðstoð sem það þyrfti á að halda til að takast á við afleiðingar brotanna.  Er framburður hans ástæða þess að upplýst varð um málið og ákæra gefin út.

 

Skýr vilji til að bæta fyrir brotin

 

„Með vísan til þeirrar miklu sérstöðu málsins að málið upplýsist og sé dæmt vegna þess frumkvæðis ákærða að segja frá brotum sínum, sem sýnir svo ekki verður um villst iðrun ákærða og skýran vilja hans til að bæta fyrir brot sín, þykir fært að skilorðsbinda hluta refsingarinnar,“ segir í dómnum. Vegna alvarleika brotanna verður skilorðstíminn þó svo langur sem lög leyfa.

Manninum var gert að greiða brotaþola 2 milljónir króna með vöxtum, um 580 þúsund krónur í sakarkostnað, ríflega 130 þúsund krónur til lögmanns síns og um 280 krónur til skipaðs réttargæslumanns

Arnbjörg Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kvað upp dóminn.

 


Nýjast