Tryggvi Snær Hlinason í nýliðavali NBA

Tryggvi Snær Hlinason lék áður með Þór Akureyri við góðan orðstýr. Nú gæti hann verið á leið í NBA d…
Tryggvi Snær Hlinason lék áður með Þór Akureyri við góðan orðstýr. Nú gæti hann verið á leið í NBA deildina bandarísku. /Mynd úr safni

Bárðdælingurinn ungi, hái en knái, Tryggvi Snær Hlinason verður í svokölluðu nýliðavali fyrir bandarísku atvinnumannadeildina NBA í körfubolta en valið fer fram í næstu viku. Þetta staðfesti körfuboltasérfræðingurinn Jonathan Givony hjá Draft Express á samskiptamiðlinum  Twitter í vikunni. Téður Givony telur að Tryggvi verði valinn í annarri umferð valsins.

Það yrði óneitanlega risastórt afrek ef Tryggvi Snær nær þeim áfanga að spila í NBA deildinni bandarísku. Hingað til hefur aðeins einn Íslendingur leikið í deildinni en það var Pétur Guðmundsson. Hann var valinn í þriðju umferð nýliðavalsins árið 1981 af Portland Trail Blazers. Jón Arnór Stefánsson samdi reyndar við Dallas Mavericks árið 2003 en hann lék ekki deildarleik með liðinu.

Tryggvi Snær er í dag á mála hjá spænska liðinu Valencia þar sem hann hefur spilað að meðaltali fimm mínútur í leik. „Þrátt fyrir að tölfræði hans sé ekki glansandi þá hefur hann sannað að hann getur þjónustað lið sitt í tveimur bestu deildum Evrópu,“ sagði í umfjöllun um Tryggva á bandarísku körfuboltaáhugamannasíðunni Sir Charles in Charge.

„Leikmenn í nýliðavalinu reyna að heilla liðin í deildinni fyrir sjálft valið á ýmsan hátt. Flestir æfa hjá nokkrum liðum og koma sér þannig á framfæri. Í dag [þriðjudag] var tilkynnt að Tryggvi Snær væri einn af tveimur leikmönnum sem Pheonix Suns væru að skoða,“ segir á körfuboltavefnum karfan.is. Þá hefur verið nokkur umræða í fjölmiðlum vestan hafs um áhuga liða á Tryggva Snæ, það verður því fróðlegt að fylgjast með hvað gerist í nýliðavalinu sem fer fram 21. júní n.k.

 

 


Nýjast