Tími framkvæmda í ferðaþjónustu

Sara Björk Jóhannesdóttir.
Sara Björk Jóhannesdóttir.

Ísland er stórt land en lítil þjóð. Meiri hlutinn af landinu er óbyggður og jafnvel ósnertur. Við erum með mikið af náttúruperlum sem varðveitast vel vegna þess hve fá við erum. Íslendingar ferðast mikið til útlanda, komast í hitann og versla ódýrari vörur. Við ferðumst líka mikið um okkar eigið land til að kynnast því betur og ef það er eitthvað sem við höfum tekið eftir þá er það að Ísland er allt öðruvísi en önnur lönd.

Ferðamönnum á Íslandi hefur fjölgað mjög síðustu ár, sem er bæði gott og slæmt. Það góða við þessa þróun er að við fáum tekjur og það verða til fleiri störf tengd ferðamannaiðnaði. Hið slæma er hins vegar að Ísland var ekki beint tilbúið fyrir þennan mikla fjölda ferðamanna. Á mörgum stöðum eru engir göngustígar, engin klósett, fá bílastæði og malarvegir. Ferðamennirnir koma til þess að sjá og upplifa náttúruna og það er þess vegna í okkar höndum að sýna þeim hana á sem bestan hátt.

Í fréttum heyrir maður svo að þessi og hinn ferðamaður gangi út fyrir göngustíginn, keyri út fyrir vegina og geri þarfir sína út í móa. Einhvern veginn finnst mér ég aldrei heyra um að við séum að setja betri göngustíga, vegi og klósett. Ýmsar tillögur hafa verið settar fram en aldrei er neinu komið í gang. Það getur ekki verið vegna þess að það vanti fjármagn því ferðamannaiðnaðurinn gerir ekkert annað en dæla inn peningum í kerfið. Ég skil því ekki af hverju það er ekkert gert í þessu. Íslendingar geta ekki ætlast til þess að ferðamenn viti hvað má og hvað má ekki.

Það erum við Íslendingar, heimamenn, ríkisstjórnin og Guðni forseti sem eigum að passa landið. Við vitum að það er mikill fjöldi ferðamanna sem kemur hingað árlega til að skoða og upplifa. Það á ekki að vera mikið mál að setja upp göngustíga, vegi og bílastæði þegar við fáum svona mikinn pening í gegnum ferðaþjónustuna. Ef við ætlum að halda ferðamannastraumnum við, sem við viljum helst því það er gott fyrir landið, þá þurfum við að bæta okkur í þessum málum. Það gengur ekki lengur að sitja og spjalla um málið. Nú er komið að því að framkvæma.

-Sara Björk Jóhannesdóttir er nemandi á 1. ári í Menntaskólanum á Akureyri

 


Nýjast