Það er ekki konum að kenna að laun kennara séu lág

Orð þingmanns og kennara hvöttu mig til að setja þessi orð á blað. Þegar því er beinlínis haldið fram að það sé vegna fjölda kvenna í kennarastéttinni að launin séu lág þá blöskrar mér. Þeir sem halda slíku fram virðast ekki þekkja forsöguna.

Fyrir tæpum sex áratugum ákvað Alþingi laun kennara, og ekki bara þeirra heldur allra opinberra starfsmanna, með lögum sem þótti úreld að- ferð. Opinberir starfsmenn fengu samningsrétt árið 1962 en hann var án verkfallsréttar og kennarar sömdu um launin í gegnum kjarasaming. Kjaradómur átti að ákveða laun kennara næðist ekki kjarasamingur og átti dómurinn að hafa þróun almenna launa markaðarins til hliðsjónar. Það var á þessum tíma sem kjaradómur dæmdi kennurum verulegar hækkanir og eftir gífurleg mótmæli almenna markaðarins treysti kjaradómur sér ekki til að leiðrétt kjör opinberra starfsmanna nema að litlu leyti. Kennarar sömdu sjálfir um sín sérmál árið 1973 en heildarsamtökin létu þau af hendi. Kjaradómur olli opinberum starfs mönnum mikilli óánægju, og árið 1976 fengu stéttarfélögin samningsrétt með verkfallsrétti (Örnólfur Thorlacius, 1995). Hér má sjá að kennarar fengu samingsréttinn 1962 og þá var fjöldi kvenna ekki mikill í stéttinni.

Er það virkilega fjölgun kvenna í stéttina sem ræður kaupum og kjörum, það get ég ekki fallist á. Um miðja síðustu öld eða nánar tiltekið 1960 voru karlar 72% af kennurum, eða barnakennurum eins og það hét, og þeim hefur fækkað töluvert eftir því sem árin líða. Fram undir 1960 þótti frekar við hæfi að ráða karlmann á unglingastig en kennsla á yngri stigum þótti henta konum betur (Loftur Gutt ormsson og Ólöf Garðarsdóttir, 2012).

Á þeim tíma sem karlarnir voru í meirihluta fengu kennara, eða opinberir starfsmenn, samingsréttinn. Það var ekki auðvelt fyrir konur að komast í kennarastöðu á árunum 1930-1960 en Loftur og Ólöf segja, ,,Til að komast í kennarastöðu þurftu synir ekki að eiga jafn sterkan bakhjarl í félagslegu og menningarlegu tilliti og dæturnar.“ Barna gæsla var ekki almenn árið 1960 og varð það fyrst þegar leikskólar opnuðu en það hafði áhrif á menntun og atvinnuþátttöku kvenna. Það má segja að uppfræðsla barna hafi höfðað til kvenna sem sáu mæður sína á heimilunum og því sóttu konur inn í kennarastéttina.

Ekki tíðkaðist að kona færi til sjós og gerir vart enn, lærði skipstjórn, vélstjórn eða yrði flugmaður þó við sjáum breytingu á þeirri faggrein á síðasta áratug. Múriðn, pípulagnir, bifvélavirkjun eða rafvirkjun eru faggreinar sem konur sækja lítið í og ástæðan er mér hulin. Að benda á konur og setja þær í samhengi við slakt gengi í kjaramálum grunnskólakennara undanfarinna áratuga er rangt að mínu mati.

Grunnskólakennarar hafa stundum í hálfkæring sagt þetta sjálfir, að fjölgun kvenna í stéttinni hafi haldið kjörunum niðri, og það er miður. Álit samfélagsins á stéttinni er ekki gott og ekki bætir svona ,,háðsglósa“ sem á ekki við rök að styðjast.

Það þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi þess að fleiri karlmenn sinni kennslu. Starfsfólk leikskóla er nær eingöngu kvenfólk og stór hluti starfsmanna í grunnskólanum er það sömuleiðis. Það er fyrirmyndanna vegna sem við þurfum karlmenn inn í grunnskólann, ekki að þeir hali upp launin.

Grunnskólakennaramenntunin er fimm ára háskólanám sem vegur hana upp til vegs og virðingar (eða ætti að gera það) en enginn fær kennararéttindi í grunnskóla örðuvísi en að hafa lokið meistaragráðu. Finnar hafa löngum talið meistaragráðu lágmarks menntun til að sinna kennslu en í bókinni Finnish lessons 2.0 (Finnska leiðin 2.0) eftir Sahlberg (2015), kemur fram að kennsla sé engin geimvísindi heldur sé hún meira en það. Þeir sem hafa hlotið meistaragráðu þar í landi séu launaðir samkvæmt því og kennarar njóti virðingar vegna langskólagöngu sinnar. Til að sinna kennslu, segir Sahlberg, þurfi vel menntaða og launaða kennara og það sé viðurkennt í finnska samfélaginu. Finnskir kennara finna að borin sé virðing fyrir starfinu og það sé hluti ástæðunnar að ungir Finnar líti á kennslu sem aðdáunarvert starf.

Hér á landi vantar töluvert upp á virðingu fólks gagnvart menntun og starfi kennara og hvað þá að launakjör séu í samræmi við menntun og kröfur. Tökum út ,,háðsglósuna“ um að það sé kvennanna verk að laun kennara séu lág það gæti verið byrjun á aukinni virðingu fyrir stéttinni.

Höfundur er grunnskólakennari

- Greinin birtist fyrst í Vikudegi, 9. mars 2017

   Heimildir:

   Loftur Guttormsson og Ólöf Garðarsdóttir. (2012). Íslenskir barnakennarar 1930 og 1960. Félagsleg og lýð- fræðileg einkenni. Sótt 1. mars 2017 á http://netla.hi.is/menntakvika2012/010.pdf

   Sahlberg, Pasi. (2015). Finnish lessons 2.0. Columbia Iniversity: Teachers college.

   Örnólfur Thorlacius. (1995). Verðið eigi margir kennarar... Sjaldan veldur einn þá tveir deila, segir. Sótt 1. mars 2017 á http://www.mbl.is/greinasafn/grein/184335/  


Nýjast