Stysta lokun Jaðarsvallar í áraraðir

Ef að líkum lætur fá golfarar langt tímabil í ár.
Ef að líkum lætur fá golfarar langt tímabil í ár.

Jaðarsvöllur á Akureyri var opnaður þann 1. maí sl. og kemur völlurinn vel undan vetri sem var einstaklega hlýr. Aðeins eru um 140 dagar síðan golfmót var haldið á vellinum eða þann 18. desember, sem gera rétt rúmlega fjóra mánuði. Steindór Ragnarsson, vallarstjóri á Jaðarsvelli, segir þetta vera stystu lokun vallarins í áraraðir.

„Ég byrjaði að vinna hérna árið 1998 og man varla eftir öðru eins. Síðustu ár höfum við haft opið með hléum allt fram í nóvember þegar best lætur en það er langt síðan það hefur verið mót í desember. Í kjölfarið opnum við strax í byrjun maí,“ segir Steindór. Hann segir að yfirleitt sé völlurinn að opna í kringum 20. maí en það hefur stundum teygst fram í júní.

„Núna erum við að opna mun fyrr og það við býsna góðar aðstæður. Völlurinn er mun þurrari núna en oft áður þar sem minni snjór og klaki var í vetur,“ segir Steindór.    


Nýjast