Stórskemmtilegur fjölskyldusöngleikur

Úr sýningunni Galdragáttarinnar og þjóðsögunnar sem gleymdist. „Öll umgjörð sýningarinnar og frammis…
Úr sýningunni Galdragáttarinnar og þjóðsögunnar sem gleymdist. „Öll umgjörð sýningarinnar og frammistaða leikara er framúrskarandi, enda dylst engum að hér er um atvinnuleikhús að ræða,“ segir m.a. í leikdómi.

Þjóðsögur eru veigamikill hluti af menningararfleið hverrar þjóðar og eru íslendingar þar ekki undanskildir. Það eigum við ekki síst frumkvöðlinum og þjóðsagnasafnaranum Jóni Árnasyni að þakka en í ár eru liðin 200 ár frá fæðingu hans. Þjóðsagnaarfurinn er einmitt viðfagnsefni Galdragáttarinnar og þjóðsögunnar sem gleymdist, stórskemmtilegrar sýningar leikhópsins Umskiptinga sem er sett upp í samstarfi við Leikfélag Akureyrar. Grípandi tónlist, skemmtilegar persónur og æsispennandi söguþráður einkenna þennan nýja fjölskyldusöngleik sem sýndur er í Samkomuhúsinu. Ég veit hreinlega ekki hvort okkar skemmti sér betur á leiksýningunni, ég eða fimm ára sonur minn.

Í verkinu fylgjum við sjöundubekkingunum Sóleyju og Bjarti. Þau verða seint sagðir perluvinir, enda Sóley vön að stríða hinum bókhneigða Bjarti og hrekkja hann. Þegar galdragátt opnast í skólastofunni þeirra og stærðar lúka hremmir besta vin Sóleyjar, Jón Árnason, æðir Sóley á eftir honum og tekur með sér þann sem hún álítur klárastan í bekknum, sjálfan Bjart.

Gáttin leiðir þau í Hliðheima þar sem hinar ýmsu þjóðsagnaverur þrífast.

Á ferðalagi sínu læra Sóley og Bjartur að meta styrkleika hvors annars, hún er hugrökk og hann er klár. Með þeim þróast vinátta og þau komast að því að þau eru hreint ekki svo ólík, og með því að vinna saman geta þau ýmislegt.

Verurnar í Hliðheimum eru af ýmsum toga, sumar ansi ógnvekjandi við fyrstu sýn en áður en langt um líður er salurinn farinn að hlæja að þessum skrautlegu persónum. Þar koma við sögu þekktar þjóðsagnaverur einsog skoffín og skuggabaldur, marbendill, nykur og draugarnir Móri og Skotta. Nykurinn vakti sérstaka kátínu okkar mæðgina, í hvert sinn sem einhver slysaðist til þess að segja orð sem byrjar á N, rauk hann með tilþrifum af sviðinu og sonur minn emjaði af hlátri.

Sviðsmyndin er sérlega falleg og fangar vel andrúmsloft ferðalagsins. Með praktískum lausnum tekst hópnum að skapa sannfærandi umhverfi, einsog beljandi stórfljót, foss og klettaborgir, svo áhorfandinn er ávalt meðvitaður um þá mögnuðu náttúru sem sagan á sér stað í.

Búningarnir í sýningunni eru ekki síður glæsilegir og endurspegla karakter persónanna á skemmtilegan hátt, svo sem ógrynni vasa á fatnaði hinna þjófóttu draugasystkina Móra og Skottu. Húmskollan illgjarna ber þó af og er í senn tignarleg og ógnvænleg með sínar svörtu fjaðrir og löngu klær. Rödd hennar er mögnuð upp, svo þegar hún mælir fer ekki milli mála hver það er sem heldur Hliðheimum í heljargreipum.

Í sýningu sem þessari er tónlistin ekki síður mikilvæg en búningar og sviðsmynd. Alla tónlist og söngtexta í sýningunni semja þau Sesselía Ólafsdóttir og Vilhjálmur B. Bragason, einnig þekkt sem Vandræðaskáld. Lögin eru ákaflega grípandi og skemmtileg, textinn hnyttinn og uppfullur af orðaleikjum eins og Vandræðaskálda er von og vísa. Sýningunni var varla lokið þegar ég var farin að raula lög úr söngleiknum. Þá eru dansatriðin verulega lífleg og passa vel við hin hressu og skemmtilegu sönglög.

Þó Galdragáttin sé fyrst og fremst barnasýning hafa hinir fullorðnu ekki síður gaman að og sumir brandarar eru þess eðlis að einungis hinir fullorðnu í salnum skilja og hlæja að. Nokkrum sinnum í sýningunni hnippti sonur minn í mig og spurði afhverju ég væri að hlæja, enda finnst honum ekkert undarlegt að leiðsöguverðlaun Hliðheima skuli kallast Álfabikarinn.

Við mæðgin skemmtum okkur bæði stórvel og ætlum jafnvel að fara aftur að sjá þennan frábæra söngleik. Þá bjóðum ef til vill með okkur ömmum og öfum, enda er þetta skemmtun sem allir ættu að hafa gaman að.

Öll umgjörð sýningarinnar og frammistaða leikara er framúrskarandi, enda dylst engum að hér er um atvinnuleikhús að ræða. Umskiptingar og Galdragáttin og þjóðsagan sem gleymdist er rós í hnappagat hinnar blómlegu norðlensku leikhússenu og því ber svo sannarlega að fagna hve fjölbreytt og ríkulegt menningarlíf við búum við á Akureyri.

Að lokum langar mig svo til þess að hvetja öll börn í 2.-7. bekk til þess að taka þátt í Þjóðsagnakeppni Umskiptinga, þar sem þeim gefst kostur á að semja sína eigin þjóðsögu. Eftir þessa sýningu ættu þau að vera uppfull af hugmyndum og forvitni þeirra vakin á öllum þeim verum sem leynast í gömlum sögum. Það er því tilvalið að grípa penna og byrja strax að skrifa, og svo má auðvitað alltaf leita á bókasafnið til að afla sér upplýsinga um fleiri furðulegar þjóðsagnaverur.

-Hrönn Björgvinsdóttir, verkefnastjóri ungmennamála á Amtsbókasafninu


Nýjast