Stofna sjóveikissetur á Akureyri

Í tengslum við alþjóðlega ráðstefnu um hreyfiveiki sem fram fer á Akureyri dagana 7.-10. júlí verður ritað undir viljayfirlýsingu um að stofna sjóveikissetur á Akureyri. Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn á Akureyri, sem og frönsku háskólarnir í Caen og Normandí, standa að setrinu. Frá þessu er greint í Læknablaðinu.

Færa á setrinu nýtt tæki svo rannsaka megi hreyfiveiki frekar. Meðal þess sem á að skoða er hvort þjálfa megi sjómenn á tækinu í landi áður en þeir fara út á sjó, því flestallir sjómenn finni fyrir sjóveiki fyrstu þrjá til fjóra dagana í hverjum túr. Með þjálfun mætti stytta þann tíma og minnka líkur á slysum.

„Með sýndarveruleikatækni hafa menn skapað hreyfiheim sem er svo raunverulegur að einstaklingar finna fyrir hreyfiveiki, eins og sjó- eða bílveiki, þótt þeir sitji eða standi kyrrir,“ er haft eftir Hannesi Petersen, háls-, nef- og eyrnalæknir og prófessor við Læknadeild HÍ, í Læknablaðinu.


Nýjast