Starfslokasamningur kostar Akureyrarbæ tæpar tíu milljónir króna

Akureyri.
Akureyri.

Bæjarráð Akureyrar hefur samþykkt beiðni SSNE, nýs landshlutasamtaka á Norðurlandi, um aukaframlag upp á tæpar tíu milljónir króna vegna dómsáttar í máli Péturs Þórs Jónassonar gegn Eyþingi, sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. Pétur Þór er fyrrverandi framkvæmdastjóri Eyþings og höfðaði mál til heimtu bóta vegna meintrar ólögmætrar uppsagnar ráðningarsamnings.

Stjórn Eyþings sagði Pétri Þór upp störfum þann 31. janúar 2019 að undangengnum tilraunum til gerðar starfslokasamnings. Gerð var dómsátt við Pétur sem fólst í eingreiðslu að fjárhæð 14.800.000 kr. og að deilum aðila um starfslokin væri þar með lokið.

Stjórn Eyþings lagði til að upphæðinni verði skipt milli aðildarsveitarfélaganna í samræmi við lög sambandsins, hlutfallslega miðað við íbúafjölda. Þannig greiðir Akureyrarbær stærsta hluta kostnaðarins eða alls 9.199.869 kr.

Gunnar Gíslason, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, lagði fram bókun á fundi bæjarráðs þar sem hann samþykkt beiðni stjórnar SSNE um aukaframlag enda ekki annað að gera. Og bætti svo við: „Ég tel að það hefði aldrei þurft að koma til þess neikvæða ferlis sem er lokið með þeirri dómssátt sem vísað er til í erindinu, ef rétt hefði verið haldið á starfslokamáli fyrrverandi framkvæmdastjóra Eyþings frá upphafi,“ segir í bókun Gunnars Gíslasonar.


Nýjast