„Stálmúsin“ hélt lífi í Akureyringum

Andri Snær Stefánsson gengur iðulega undir nafninu „Stálmúsin“ og sýndi stáltaugar í lokamarkinu geg…
Andri Snær Stefánsson gengur iðulega undir nafninu „Stálmúsin“ og sýndi stáltaugar í lokamarkinu gegn ÍBV.

Ak­ur­eyri á enn mögu­leika á að bjarga sér frá falli úr Olís-deild karla í hand­knatt­leik eftir jafntefli gegn ÍBV á útivelli í gær og hagstæðum úrslitum úr leik Stjörnunnar og Gróttu. Akureyri náði dramatísku jafntefli gegn ÍBV, 22-22, en Andri Snær Stefánsson skoraði jöfnunarmark Akureyrar á lokasekúndu leiksins. Eftir þessi úrslit þurftu Akureyringar að bíða eftir úrslitum úr leik Stjörnunnar og Gróttu og treysta á að Stjarnan myndi ekki vinna leikinn. Það gekk eftir þar sem liðið gerðu einnig jafntefli, 31-31, og því mætast Akureyri og Stjarnan í hreinum úrslitaleik um áframhaldandi veru í efstu deild í lokaumferðinni. Sá leikur fer fram í Garðabæ á heimavelli Stjörnunnar þriðjudaginn 4. apríl.

Í Morgunblaðinu er sagt frá því að áætlað sé að fjölga liðum í efstu deild frá og með næsta tíma­bili og vegna þess mun vænt­an­lega aðeins eitt lið falla úr deild­inni. Það ræðst þó ekki end­an­lega fyrr en 9. maí þegar ljóst verður hve mörg fé­lög skrá sig til leiks á næsta Íslands­móti. Ef þau verða 20 eða fleiri verða 12 lið í úr­vals­deild­inni. Liðin eru 22 í ár. Ef þeim fækk­ar í 19 verða áfram tíu lið í úr­vals­deild og þá fell­ur liðið í 9. sæti. FH, ÍBV, Hauk­ar, Aft­ur­eld­ing, Sel­foss, Val­ur og Grótta hafa tryggt sér sæti í úr­slita­keppn­inni. Áttunda liðið verður Fram eða Stjarn­an. Um leið er ljóst að Fram, Stjarn­an og Ak­ur­eyri geta öll lent í 9. sæt­inu og gætu þurft að bíða til 9. maí eft­ir end­an­leg­um úr­sk­urði um hvar þau leika að ári.

Erfið bið í fluginu heim

Á vef Akureyrarliðsins segir að það þegar lið Akureyrar hafi farið um borð í flugvélina norður hafi stemmningin verið súr, því Stjarnan var þá fimm mörkum yfir gegn Gróttu og voru það síðustu fréttir sem leikmennirnir fengu áður en þeir þurftu að slökkva á símanum. „En eftir nokkra stund gargaði Friðrik Svavarsson yfir alla vélina að leikurinn hefði endað 31-31 en jafnframt að hann væri búinn að slökkva aftur á símanum. Óhætt er að segja að þungu fargi hafi létt af mönnum og stemmingin heldur betur léttari það sem eftir var flugferðarinnar,“ segir á vef Akureyrarliðsins.


Nýjast