Stækka á leiðarkerfi strætó án gjaldtöku

Áætlað er að það kosti um 50 milljónir á ári að bæta við einum vagni og 19 milljónir að efla kvöld o…
Áætlað er að það kosti um 50 milljónir á ári að bæta við einum vagni og 19 milljónir að efla kvöld og helgarakstur.

Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar Akureyrar, segir að ekki standi til að hefja gjaldtöku í strætisvagna. Í umræðum um samgöngumál á bæjarstjórnarfundi nýverið var rætt um að stækka þurfi leiðakerfið og bæta við vagni eða vögnum og voru nokkrir bæjarfulltrúar sem tóku til máls hlynntir þeim möguleika að hefja gjaldtöku á ný.

Leiðarkerfi Strætisvagna Akureyrar byggir á fjórum vögnum sem aka samtímis. Víst þykir að stækka þurfi leiðarkerfið innan fárra ára, m.a. til að sinna hinu nýja Hagahverfi og þá hefur verið rætt um að láta strætó ganga út á Hamra og jafnvel á flugvöllinn. Áætlað er að það kosti um 50 milljónir á ári að bæta við einum vagni og 19 milljónir að efla kvöld og helgarakstur.

Eitt af aðalsmerkjunum að bjóða upp á frían strætó

Frá árinu 2007 hefur verið frítt í strætó á Akureyri. Aðspurð segir Halla Björk að ekki sé gert ráð fyrir gjaldtöku til að fjármagna strætókerfið. „Eitt af aðalsmerkjum Akureyrar hefur verið að bjóða upp á frían strætó og núverandi meirihluta er umhugað um að bjóða bæjarbúum áfram upp á slíka þjónustu,“ segir Halla Björk.

Hún segir hins vegar ljóst að þjónusta verði ekki bætt að neinu ráði nema að bæta við vagni eða vögnum. „Eftir því sem leiðarkerfið stækkar til suðurs og vögnum fjölgar verður hagkvæmara og auðveldara að koma á nýjum leiðum, svo sem inn í Kjarnaskóg og flugvöllinn og er eitthvað sem þarf að meta hverju sinni,“ segir Halla Björk.


Nýjast