Slysin gera ekki boð á undan sér

Mynd/Hjörtur H.
Mynd/Hjörtur H.

Fimmtudaginn 6. júní s.l. skrifaði ég grein í Vikudag þar sem ég varaði við (eftir ábendingar) hættunni sem skapast á vetrum í snjó og hálku á Glerárbrúnni þeirri, sem tengir Glerárgötu og Hörgárbraut. Nú er kominn október og stutt í fyrsta vetrardag og væntanlega stutt í fyrstu snjóa en ekkert bólar á framkvæmdum til varnar slysi og er það þó auðveld og fljótleg framkvæmd eins og sést á meðfylgjandi mynd.

Meira að segja ég treysti mér til að útfæra lagfæringuna fyrir ekki neitt minnugur orða þess ágæta fyrrverandi forseta bæjarstjórnar Odds Helga að útfærsla á lagfæringu á gömlu Glerárbrúnni, sem áður var þjóðleið inn í bæinn, hefði verið áætluð kr. 20 milljónir. Stólpar eins og sjást á myndinni hér í greininni yrðu settir á gangstéttarnar og keðja strengd á milli og jafnvel vírnet, svo fólk renni ekki út á akbrautina í hálku og yrði fyrir næsta bíl. Kannski er hugsunin sú hjá þeim sem eiga að ráða að þetta hefur sloppið hingað til, en hvað gerðist á gangbrautinni sem er rétt norðan við brúna?

Umferðin er mjög hröð á þessum kafla og það leiddi til stórslyss fyrir nokkrum mánuðum er bíll ók á ungan dreng og hann lærbrotnaði illa. Og það sem meira er að ungi maðurinn varð líka fyrir andlegu áfalli við slysið. Hafði hugsunin e.t.v. verið sú fyrir slysið að þetta hefði jú sloppið hingað til?

Mér er sagt af kunnugum að þessar lagfæringar og fleiri þar sem um þjóðbraut er að ræða sé þetta samvinnuverkefni Vegagerðarinnar og Akureyrarbæjar og ætti ekki þeim síðarnefndu ekki að blöskra að setja nokkra krónur í verkið þar sem bæjarstjórnin er reynd að stórhug þegar framkvæmdir eru annars vegar og eru bæjarbúar minnugir þess er kr. 500 þús. hálfum milljarði var hent í umfram keyrslu við Listasafnið og tugi milljóna var hent í umfram keyrslu sem kölluð er því vitlausa nafni Samkomubrúin.

-Hjörleifur Hallgríms


Nýjast