Skipa vinnuhóp um hjartaþræðingar á SAk

Sjúkrahúsið á Akureyri.
Sjúkrahúsið á Akureyri.

Í framtíðarsýn Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) til ársins 2021 er eitt af markmiðunum að koma upp hjartaþræðingu við sjúkrahúsið. Óformlegur undirbúningur hefur verið til þessa en í kjölfar stuðnings Samherja mun stjórn SAk setja í gang formlega vinnu.

Eins og greint var frá í síðustu viku gaf Samherji 35 milljóna króna styrk til SAk sem nota á til að undirbúa það að koma upp hjartaþræðingu við sjúkrahúsið. Alice Harpa Björgvinsdóttir, framkvæmdastjóri lyflækningasviðs og fulltrúi í framkvæmdastjórn SAk, mun á næstu dögum skipa vinnuhóp sem ætlað er að setja fram skýrari drög að því hvernig megi standa að þessari þjónustu, bæði hvað varðar rými, tækjakaup og mönnun.

„Einnig þarf að skoða vel kostnað við bæði stofnun og rekstur. Það hefur verið unnin ákveðin grunnvinna sem þarf að vinna áfram,“ segir Alice. Hún segir alls óvíst hvenær hjartaþræðingar gætu hafist við sjúkrahúsið. Skoða þurfi niðurstöður vinnuhópsins áður en hægt verður að segja til um það. „En vonandi munum við fyrr en síðar hafa betri og skýrari mynd af stöðunni.“


Nýjast