Skemmdarverk á Gásum

Hún var ekki glæsileg aðkoman hjá starfsfólki. Mynd/Miðaldagar á Gásum
Hún var ekki glæsileg aðkoman hjá starfsfólki. Mynd/Miðaldagar á Gásum

Miklar skemmdir voru unnar á salernisaðstöðunni á fornleifasvæðinu Gásum í síðustu viku. Ekki er vitað hverjir voru að verki en skemmdarverkin hafa verið tilkynnt til lögreglu. Frá þessu er greint á vef Rúv. Gásir eru um ellefu kílómetra norðan við Akureyri. 

„Aðkoman var bara verulega slæm,“ segir Ragna Gestsdóttir, starfsmaður Minjasafnsins á Akureyri í samtali við Rúv. Allir gluggar voru brotnir, veggir rispaðir og grjóthnullungum kastað inn með þeim afleiðingum að klósettin brotnuðu. Enn sem komið er eru engar vísbendingar um hverjir voru að verki.

Ragna segir tjónið mjög mikið. Gásakaupstaður er rekinn á styrkjum og sjálfboðavinnu og kostnaður fylgir viðhaldi salernisaðstöðunnar. Á hverju sumri eru Miðaldadagar haldnir á Gásum og segir Ragna nauðsynlegt að geta boðið gestum upp á góða salernisaðstöðu.

„Fyrir utan almenna vanvirðingu við eigur annarra þá er þetta sorglegt því þetta er fornleifasvæði þar sem sjálfboðavinna er unnin,“ segir hún.

 


Nýjast